Home » 2010

Birgir Andrésson, Tumi Magnússon og Roman Signer

Svissneski listamaðurinn Roman Signer hefur á undanförnum árum tengst Íslandi með ýmsum hætti, bæði sýnt verk sín hér á landi en einnig unnið með íslenskum listamönnum. Þar á meðal eru þeir Tumi Magnússon, sem nú býr og starfar í Danmörku og á Seyðisfirði og Birgir Andrésson, en hann lést fyrir aldur fram árið 2007. Tumi Magnússon og Roman Signer sýna meðal annars ný verk sem þeir hafa unnið sérstaklega fyrir Skaftfell, en sýnd verða textaverk eftir Birgi Andrésson.BATMRS saman

Inn og út um gluggann (In and out of the limits)

Það hlýtur að teljast til veislu að sjá Birgi Andrésson, Roman Signer og Tuma Magnússon saman í einni sýningu. Maður getur gert sér í hugarlund þá útvíkkun viðmiða sem þessir þrír listamenn gangast fyrir, svo ólíkir sem þeir eru en samstíga hvað varðar endurmat á aðferðum og skilgreiningum. Birgir Andrésson, sem lést í blóma lífsins, síðla árs 2007, var einkum fulltrúi tvívíðrar listar, þótt margt sem hann sýndi væri byggt á innsetningum af ýmsu tagi.

Sama má segja um Tuma Magnússon, en málverk hans þróuðust fyrir um áratug frá olíumálun á striga til teygðrar ljósmynda á límfilmu sem smella mátti beint á vegginn. Roman Signer er sá eini þeirra sem kalla mætti myndhöggvara í víðustu merkingu. Verk hans eru samt mjög óstöðugar einingar sem sprynga eða hrynja vegna óburðugra eiginda sinna. Birgir Andrésson komst mjög snemma að mörkum myndarinnar þegar hann tók að afbyggja tvívíða list eftir glæsilega byrjun sem hugmyndlistarmaður.

Birgir og Tumi náðu saman gegnum postmóderníska gráglettni þar sem hlutbundið myndmál var annað tveggja snúið upp í hreina bókmenntalega lýsingu, eins og i tilviki hins fyrrnefnda, eða teygt til afskræmingar, líkastri spéspeglun, svo sem í tölvuveggmyndum Tuma.

BATMRS verk saman

Hér er þar sem grafalvarleg fyndni þeirra mætir jafn postmódernískri tæknihyggju Signers, þar sem traustum hlutum er splundrað eða velt um koll, til að sýna hve veröldin er fallvölt og engu treystandi, síst af öllu ásýnd hlutanna. Það sem einkum er áhugavert í öllum þremur tilvikum, Tuma, Romans og Birgis, er fylgni þeirra við formið sem ramma, sem þeir teygja og toga í fullkomna afbökun, að því er virðist til að snúa hversdagsleikanum upp í geggjaða sprengidagsveislu.

                                                                        Halldór Björn Runólfsson