Elvar Már Kjartansson & Litten Nystrøm: Það er ekki rétt

Opnun: laugardaginn 21. september 2019, kl. 16:00-18:00

21. september – 26. október, 2019

Titill sýningarinnar, Það er ekki rétt er torræður af ásettu ráði og sem slíkur á hann vel við verk Elvars Más Kjartanssonar og Litten Nystrøm.

Báðir listamennirnir hafa kosið að gera Seyðisfjörð að þeirra heimabæ. Bærinn hefur löngum þótt aðlaðandi í augum listamanna hvaðanæva úr heiminum til að dvelja þar og vinna og í sumum tilfellum að setjast þar að. Þessi sýning er afrakstur samtals sem á sér stað milli listamanna sem búa í slíku skapandi umhverfi og samfélagi. Sýningin var ekki unnin í samvinnu í eiginlegum skilningi en hins vegar eyddu Elvar og Litten umtalsverðum tíma í að tala um verkin sín og finna þema, sameiginlegan flöt og samhljóm.

Á sýningunni er tveimur listamönnum teflt saman sem bregðast við efnivið og ferla á ólíkan hátt, en um leið má finna einhvern skyldleika þar á milli. Litten Nystrøm skapar fínleg verk og notast oft við textíl sem hún litar með litarefnum sem búin eru til úr svæðisbundnum jarðefnum. Þessi umbreyting er bæði hefðbundin og tilraunakennd og má hugsa sem eins konar afhjúpun jarsögulegs tíma. Slíkur verknaður virðist vera tilraun til að brjóta til mergjar það sem þrífst utan mannlegs tíma með því að umbreyta efninu og mylja í smátt þannig að úr verði litarefni, sem aftur hefur áhrif á litbrigði efnisins.

Það sama má segja um Elvar Már Kjartansson sem er áhugasamur um atburðarrás ummyndunar. Hann hefur sterka tengingu við timbur enda starfar hann sem smiður. Nálgun hans á þess konar efnivið er að setja af stað ferli eða atburðarrás efnisins. Þessi athöfn á það til að vera ágeng, eins og t.d. að kljúfa bút af reynivið. Með slíkum gjörningi sleppir Elvar lausum óhlutbundnum leifum efnisins. Líkt og hið sérkennilega hljóð sem verður til þegar timbrið klofnar og hið óefnislega sem býr í forminu og ferlinu leysast úr læðingi.

Stutt æviágrip
Elvar Már Kjartansson
fæddist í Reykjavík árið 1982. Frá 2009 flakkaði hann á milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar og fluttist alfarið til Seyðisfjarðar 2012. Hann hefur sýnt víða á Íslandi auk þess sem hann hefur tekið þátt í sýningum í París, Frakklandi; Prag, Tékklandi; Bruno, Tékklandi; og Vín, Austurríki. Árið 2016 tók Elvar þátt í verkefninu Frontiers of Solitude sem var samstarfsverkefni milli Skaftfells og stofnana í Noregi og Tékklandi þar sem rannsakaðar voru tímabundnar breytingar á landslagi. Elvar starfar þar að auki undir listamannsnafninu Auxpan og gefur út tilraunakennda tónlist og hefur m.a. tekið þátt í tónleikum á Íslandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Englandi, Ítalíu og Belgíu.

Litten Nystrøm (fædd 1977 í Árósum, Danmörk) nam við Konunglega danska listaháskólanum í Kaupmannahöfn á tímabilinum 2003-2008. Litten flutti til Íslands eftir að hafa dvalið í gestavinnustofu Skaftfells árið 2011. Árið 2016 stofnaði hún, ásamt Linus Lohmann, FOSS sem er vettvangur útgáfu á eintökum í takmörkuðu upplagi, listabókum og bókverkum. Hún hefur sýnt víða erlendis þ.á.m. í Kunsthal Charlottenborg, í Kaupmannahöfn, Danmörku; Centre for Contemporary Art, í Árósum, Danmörku; Iaspis, Stokkhólmi, Svíþjóð; og hélt nýverið einkasýninguna After Memory, í Art Link’s Suldanha Suite, Fort Dunree á Írlandi árið 2019.