Home » 2018

Hvít sól: rannsókn á sólarklukku og sumarhimni

Við á norðurhveli búum við þær öfgar að sólin er ekki hin áreiðanlegasta klukka, hún færir okkur þó mjúklega inn í árstíðirnar með öfgakenndri birtu og myrkri. Ef við myndum smíða okkar eigin sólarklukku, hvernig liti hún út? Hvað myndi hún mæla?

Fjórar listakonur koma til Seyðisfjarðar um hásumar til að rannsaka sumarhimininn með það verkefni í huga að búa til sólarklukku. Þær munu starfa í viku með allskyns tól að vopni, til skrásetningar og mælinga á sumarhimninum, sem mun vinna inn í rannsókn þeirra að sólarklukkunni.

Þriðjudaginn, 17. júlí kl. 18:00, munu þær fremja sólargjörning undir næturhimni. Viðburðurinn er hluti af LungA hátíðinni og í framhaldi opnar sýning í Skaftfelli í nóvember sem ber nafnið Hvít sól.

Um listamennina

Myndlistarhópurinn IYFAC (Inspirational Young Female Artist Club) þjónar sem sem vinnustofa og umræðuvettvangur um sköpun fyrir meðlimi hópsins. Þær hafa haldið tvær myndlistarsýningar saman á síðustu árum og með a.m.k tvær á kortunum. Þær hafa beint sjónum sínum að hinu margræða í því hversdagslega. Sýning þeirra, Ástarsameindir í SÍM salnum við Hafnarstræti var hluti af Vetrarhátíð 2016. Í haust sýndi hópurinn í Gallerí Gróttu sýninguna, Ég sagði það áður en þú gast sagt það. Tíminn var sterkur þráður í þeirri sýningu, og þá sérstaklega tími konunnar. Hópurinn vill halda áfram að rannsaka margræðu plön tímans.

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum síðan sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og kvik-teikningar. Hún kallar sig myndskáld. www.hallabirgisdottir.org

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA-námi úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA-námi úr Háskóla Íslands í ritlist. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum innan leikhúss og myndlistar, samið, sett upp, tekið þátt í fjölda gjörninga, sýninga og unnið innsetningar bæði á Íslandi og erlendis. www.rahaharpa.com

Ragnheiður Maísól Sturludóttir lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í mörgum samsýningum síðan. Hún er einnig meðlimur í Sirkus Íslands og Reykjavík Kabarett. Hún vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar og fjalla verkin hennar um töfrana í hversdeginum og mannlegri hegðun. www.behance.net/maisol

Sigrún Hlín Sigurðardóttir er myndlistarkona og hefur unnið með bæði textíl og texta í verkum sínum, meðal annars í innsetningum, leikhúsi og útvarpi. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og í íslensku frá Háskóla Íslands og lagði þar að auki stund á nám í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík. www.sigrunhlin.com

UA-Lunga-2018