Ingibjörg Sigurjónsdóttir: Mon ciel, mi cielo. Hvað ertu raunverulega að meina?

17. júní – 6. september, 2020

Sumarsýning Skaftfells verður í höndum myndlistarmannsins Ingibjargar Sigurjónsdóttur (f.1985) sem býr og starfar í Reykjavík. Hún mun sýna eigin verk í formi teikninga, stafrænna prenta og skúlptúra, ásamt völdum verkum eftir listmálarann og leirlistamanninn Benedikt Guðmundsson (1907-1960), en Ingibjörg ólst upp innan um verk hans sem prýddu heimili afkomenda hans sem eru nánir fjölskylduvinir. 

Verk Ingibjargar snerta á „grunnviðleitninni til listsköpunar og undirstöðu myndlistar – línu, lit, myndbyggingu“ en eru um leið hluti af frásögn sem raðast saman úr brotum sem glittir í. Titill sýningarinnar er fenginn úr texta eftir Ingibjörgu þar sem hún segir m.a. „merking liggur óuppgötvuð í ómerkilegum hlutum“. Ingibjörg beinir athygli sinni að fíngerðri tjáningu í teikningu og smáatriðum sem við látum framhjá okkur fara í hversdeginum. 

Ákvörðun Ingibjargar um að stilla saman verkum sínum og Benedikts Guðmundssonar hefur að gera með áhuga á grunneðli listsköpunar og formi hennar en þar að auki verðu líf hans og starf tákn fyrir tíma, fjarlægð og fjarveru sem tengir saman alla skapandi iðju. Í huga Ingibjargar er „eitthvað fallegt við hvernig flestir listamenn helga líf sitt listinni, gera verk sem að öllum líkindum munu gleymast eða týnast. Það er fegurð í því að búa til öll þessi verk fyrir gríðarflæmi óminnis … einhvers staðar finnst mér það áhugavert og fallegt. Það hefur eitthvað að gera með kjarnann í því af hverju við vinnum nokkur verk yfir höfuð og hvað það þýðir að vera listamaður.“

Ingibjörg fæddist árið 1985 og útskrifaðist með B.A. gráðu frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún býr og starfar í Reykjavík og er stjórnarmaður í listarekna galleríinu Kling & Bang. Hún hefur sýnt víða t.a.m. í Reykjavík, á Ísafirði, í Miami, Basel og Vín. Hún hefur einnig fengist við sýningastjórn í Kling & Bang og Listasafni Reykjavíkur.

Benedikt Guðmundsson fæddist í Reykjavík árið 1907. Sem ungur maður var hann sendur til Þýskalands og Danmerkur til að nema slátraraiðn en hann nýtti tíma sinn þar til að sækja námskeið í myndlist og heimsækja listasöfn. Benedikt vann ötullega að list sinni, gerði áræðin málverk og fíngerðar pastelteikningar. Hann rak leirverkstæðið Sjónarhól á árunum 1947-1952 þar sem hann vann úr íslenskum leir. Að loknum vinnudegi í kjötbúð sinni nýtti Benedikt kvöld og nætur til að sinna listinni. Benedikt var hluti af kjarna, bæði starfandi listamanna og frístundamálara, sem hittust reglulega í stofu fjölskyldunnar og ræddu myndlist og máluðu í kjöltu sér, þ.á.m Gunnlaugur Scheving, Jóhannes Pálsson, Jóhann Sigurðsson og Þorvaldur Skúlason. Benedikt naut einnig tilsagnar hjá Þorvaldi um skeið. Benedikt hélt einkasýningar í Listamannaskálanum, Mokkakaffi og Safnahúsinu og var að vinna að sýningu er hann lést aðeins 53 að aldri árið 1960. Vinir hans og fjölskylda efndu svo til sýningar í Bogasal Þjóðminjasafnsins að honum gengnum til að framkvæma það ætlunarverk hans. Í sýningarskrá sýningarinnar segir:  “Myndlistin átti hug Benedikts og við sjáum hér ávöxt af vökunóttum hans og listadraumum, er góðborgarar voru gengnir til náða.”