Lisfræðsluverkefni Skaftfells
Árið 2007 hafði Skaftfel frumkvæði að markvissu fræðslustarfi sérsniðnu að þörfum grunnskólanna á Austurlandi. Miðstöðin hefur síðan þá boðið upp á listfræðsluverkefni sem fjallar um myndlist og sköpun með einum eða öðrum hætti til að auðga listgreinakennslu í fjórðungnum. Ennfremur hefur miðstöðin unnið náið með Seyðisfjarðarskóla í fjölda ára og sá m.a. um myndmenntakennslu fyrir elstu nemendur skólans á tímabilinu 2009-2017.
Listfræðsluverkefni Skaftfells hafa síðustu ár verið hluti af BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi á haustin og í samstarfi við List fyrir Alla. Verkefnin eru hönnuð og kennd af starfandi listamönnum og eru boðin skólum á Austurlandi og Norðausturlandi að kostnaðarlausu. Venja er að annað hvert ár tengist verkefnið sýningu í Skaftfelli og er þá nemendum boðið í heimsókn á Seyðisfjörð þar sem þau vinna verkefni um sýninguna og fá leiðsögn. Hin árin ferðast verkefnin á milli skóla.
Samstarf við Listaháskóla Íslands
Dieter Roth Akademían: Á tímabilinu 2001-2018 stóð Dieter Roth Akademían, ásamt Listaháskóla Íslands, fyrir árlegu námskeiði fyrir útskriftarnemendur myndlistardeildar sem bar heitið Vinnustofan Seyðisfjörður. Á þessum námskeiðum var allur bærinn opnaður fyrir nemendunum og unnu þeir náið með starfsmönnum ýmissa verkstæða og fyrirtækja í bænum að verkum sínum sem þau enduðu með að sýna í Skaftfelli. Samstarfsaðilar voru m.a. Tækniminjasafn Austurlands og Stálstjörnur.