
Listfræðsluverkefni Skaftfells árið 2025 fór fram 8. september – 3. október og var unnið samhliða sumarsýningu Skaftfells 2025, Kjarval á Austurlandi. Á sýningunni voru landslagsmyndir frá Austurlandi eftir Kjarval, flestar úr fórum Listasafns Íslands. Á Borgarfirði eystri eru æskustöðvar Kjarvals og sótti hann oft á tíðum efnivið verka sinna til hins tignarlega landslags á Austurlandi.
Nemendum á miðstigi á Austurlandi og Norðausturlandi var boðið í heimsókn í Skaftfell listamiðstöð á Seyðisfirði þar sem þau fengu leiðsögn um sýninguna, tóku þátt í listasmiðju tengdri sýningunni og fóru í fræðsluheimsókn í Tækniminjasafnið.
Í leiðsögn um sýninguna voru verkin notuð sem útgangspunktur til þess að fjalla um og skoða; menningararf, málaralist, náttúru, nærsamfélag og goðsagnir. Í listasmiðjunni fengu nemendur frekari innsýn inn í líf og list Kjarvals með áherslu á æsku hans og tengsl við Austurland. Í smiðjunni var stuðst við sköpunaraðferðir og litanotkun Kjarvals í málverkum hans. Hanna Christel Sigurkarlsdóttir myndlistarkona þróaði og leiddi listasmiðjuna. Að lokum var gengið í gegnum vörður Tækniminjasafns Austurlands utandyra áður en endað var inni á safninu þar sem fræðsla, kynning og frjáls tími fór fram.
Tólf skólar á Austurlandi og Norðausturlandi tóku þátt í verkefninu, eða um 300 nemendur á miðstigi. Verkefnið er hluti af List fyrir alla og BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Múlaþingi. Einnig tóku þátt í rútukostnaði eftirfarandi fyrirtæki; Skógarafurðir, Hafaldan, Tanni Travel, Tehúsið, Gistihúsið, Síldarvinnslan, Brúnás, Hótel Holt, Héraðsprent, Trévangur, Skálanes, Lostæti, Launafl, Fagkaup og Alcoa.