Minningarorð um Björn Roth (1961-2026)

Björn Roth

Ég hef aldrei sagt nemendum að ég hef lært meira af þeim en þeir af mér. (Björn Roth, 5. júlí 2021)

Þann 2. janúar 2026 andaðist Björn Roth, myndlistarmaður, sýningarstjóri og kennari. Björn var frá upphafi einn helsti samverkamaður Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi, og gegndi mikilsverðu hlutverki í uppbyggingu starfseminnar. Hann var einn af stofnendum miðstöðvarinnar og sat í sýningarnefnd frá 1999. Þegar sú nefnd var lögð niður tók hann við sem listrænn heiðursstjórnandi, frá 2008 til 2010. Samhliða sinnti hann formennsku í Skaftfellshópnum frá 2001-2008 og sat sem varamaður í stjórn Skaftfells, árin 1997 til 2004. Auk þessa hannaði Björn útlit bístrósins á jarðhæð miðstöðvarinnar.

Björn var einn af fyrstu listamönnunum sem sýndu í sýningarsal Skaftfells árið 1999 þegar salurinn var vígður eftir endurbætur. Þar var hann í góðum félagsskap, ásamt listamönnunum Bernd Koberling og föður sínum Dieter Roth (1930-1998). Rúmlega tíu árum seinna, árið 2010, opnaði Björn einkasýningu í Skaftfelli, þar sem annar góður maður sem er nýfallinn frá skrifaði sýningartextann, Guðmundur Oddur Magnússon (1955-2026).

Björn var frá upphafi lykilmaður þegar kom að því að velja listamenn til að sýna og setja upp sýningar í Skaftfelli. Fyrir hans tilstuðlan komu margir vel þekktir listamenn, meðal annars áðurnefndur Bernd Koberling ásamt Olav Christopher Jenssen, Paul Osipow og Fredie Beckmans. Auk þess sýningarstýrði Björn nokkrum mikilvægum sýningum, t.d. Myndlist um allan bæ árið 2005 sem var hluti af listahátíðinni Á Seyði og Ferðalag árið 2008 sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík. Einnig sýningarstýrði hann 15 ára afmælissýningu Skaftfells, Hnallþóra í sólinni, árið 2013. Þar voru til sýnis fjölmörg prentverk eftir Dieter og fékk sýningin góðar viðtökur. Hún ferðaðist seinna til Hafnarfjarðar og var sett upp í Hafnarborg árið 2014. 

Í samstarfi við Kristján Steingrím Jónsson átti Björn frumkvæði að því að þróa umfangsmesta samstarfsverkefni Skaftfells frá byrjun, námskeiðið Vinnustofan Seyðisfjörður. Vinnustofan var haldin alls átján sinnum frá 2001 til 2018, fyrir BA útskriftarnema í myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Samstarfsaðili vinnustofunnar var Dieter Roth Akademían og seinna bætist við Tækniminjasafnið. Árlega, rétt fyrir þorra, kom nemendahópur að sunnan og dvaldi á Seyðisfirði í tvær vikur með það að markmiði að búa til nýtt listaverk og opna sýningu. Áhersla var lögð á að kynna fyrir nemendum vinnuaðferðir Dieters og vinna með þær sérstöku aðstæður sem fjörðurinn býður upp.

Nemendur fengu hvatningu til að gera stórtækt verk og mikið var lagt upp úr því að þeir ynnu verk sín í samstarfi við heimamenn. Eins voru synir Björns, Oddur og Einar, með öflugt innlegg í vinnustofuna, tóku þátt í gerð verka og uppsetningu. Úr þessu samkrulli urðu til mörg eftirminnileg listaverk, m.a. demantur sem náði milli hæða, appelsínugult gufubað, stórir ljósastafir í Bjólfinum, gufubað í sendibíll, sorp í glerbúri, appelsínugulir ljósastaurar, ananas í fiskikari, stórir belgir sem náðu úr sýningarsalnum og teygðu sig út í gegnum gluggana, smámyndir af húsunum á Seyðisfirði sem húseigendur máttu taka, matargjörningar og nektargjörningar. 

Opnanir á þessum sýningum þróuðust í að vera lykilviðburðir í seyðfirsku menningarlífi, þær voru vorboði, alltaf mjög vel sóttar og ávallt mikill gleðskapur. Alls sóttu tæplega 200 nemendur vinnustofuna og margir þeirra hafa snúið aftur til Seyðisfjarðar til að vinna að ýmsum verkefnum, meðal annars í samvinnu við Skaftfell. Þegar þetta er skrifað er einmitt nemendahópur frá Listaháskóla Íslands á Seyðisfirði að taka þátt í vinnustofu sem leidd er af tveimur myndlistamönnum sem voru nemendur í fyrstu vinnustofu Björns, sem var haldin fyrir 25 árum.

Björn var einstaklega liðlegur og styðjandi gagnvart nemendum, Skaftfelli og Seyðisfirði. Þegar fyrsta vinnustofan fór fram keypti hann stígvél handa öllum hópum, seinna fjármagnaði hann tvo skjávarpa til að nota í sýningarsalnum, hann lánaði bílinn sinn, verkfæri og allt mögulegt til að láta sýningar uppsetningu ganga upp. Einnig tók hann þátt í að skipuleggja fjáröflunaruppboð fyrir Skaftfell árið 2007, hafði milligöngu um að prentvélar í eigu Dieters voru fluttar til varðveislu á Tækniminjasafnið og fjármagnaði endurbætur á Geirahúsi. Hans framlag verður seint fullþakkað.

Þakklæti er einmitt það fyrsta sem baklandi Skaftfells kemur í huga við fráfall Björns. Örlæti hans og listrænt framlag hefur styrkt starf miðstöðvarinnar í nærri 30 ár. Andi hans og arfleið mun fylgja okkur um ókomna tíð.

Skrifað fyrir hönd stjórnar Skaftfells, Skaftfellshópsins, núverandi og fyrrverandi starfsmanna
Tinna Guðmunds

Ég þykist vita að Birni Roth líði best í náinni snertingu við náttúruna, helst úti í góðri veiðá með flugustöng. Ef maður vill kynnast sál hans og myndlist í sínu besta formi þarf að hafa þetta í huga finnst mér. Það er þessi nálgun og nálægð við náttúruna sem sést svo vel í verkum hans. Formin koma þaðan. Verkin eru ekki spegilmynd af náttúrunni heldur eins konar opnun inn í hana. Þar er næmi hans.

Björn hefur í æ ríkari mæli fetað eigin slóðir í myndgerð sinni. Jarðvegurinn sem hann vex úr og tilheyrir leynir sér auðvitað ekki. Sá jarðvegur er að stórum hluta austfirskur. Seyðisfjörður og Loðmundarfjörður eru stór hluti hjarta hans. Myndir Björns eru hjarta hans og nálægð við þá náttúru.

Texti eftir Guðmund Odd Magnússon fyrir sýningu Björns árið 2010.

https://archive.skaftfell.is/bjorn-roth

Deila þessum fréttum

Aðrar fréttir