Skaftfell Listamiðstöð er sjálfstæð stofnun sem tileinkuð er miðlun, viðgangi og framþróun myndlistar á Austurlandi í formi sýningarhalds, reksturs gestavinnustofu og fræðslustarfs. Miðstöðin var formlega opnuð árið 1998 til heiðurs listamanninum Dieter Roth (1930-1998) en hann gegndi stóru hlutverki í menningarstarfi Seyðfirðinga allt frá því hann hóf að venja komur sínar á Seyðisfjörð upp úr 1990. Tilurð miðstöðvarinnar er sprottin úr þeim frjóa jarðvegi sem hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði. Nafn stofnunarinnar er dregið af timburhúsinu sem hýsir hana sem reist var árið 1907. Skaftfell hýsir íbúð og vinnustofu fyrir gestalistamenn, sýningarsal, skrifstofu, bókasafn og Skaftfell bistró.
Markmið starfseminnar er að auka aðgengi Austfirðinga að vandaðri samtímalist og stuðla að dýpri þekkingu og skilningi á hlutverki myndlistar í samtímanum ásamt því að skapa örvandi vinnuumhverfi fyrir listamenn. Gestavinnustofan er mikilvægur vettvangur miðstöðvarinnar til að skapa samtal og skiptast á viðhorfum og hugmyndum um listir og skapandi ferli.

Um gestavinnustofuna
Skaftfell Listamiðstöð býður upp á sjálfstæðar gestavinnustofur fyrir listamenn. Gestavinnustofan veitir listamönnum tækifæri til að vinna í tiltölulegri einangrun á stað sem er einnig heimkynni alþjóðlegs samfélags starfandi listamanna. Gestavinnustofan býður upp á rými fyrir íhugun, sköpun og samvinnu og er tilvalin fyrir listrænar rannsóknir og tilraunir.
Gestavinnustofan einkennist af umhverfi sínu á Seyðisfirði. Myrkir veturnir eru tími mikillar sköpunargleði og mikið er um að vera líkt og LungA-skólinn, List í ljósi listahátíð og Flat Earth Film Festival auk viðburða á vegum Skaftfells. Á haustin er starfandi Hinsegin gestavinnustofa (Queer residency at Heima) og á vorin sér Ströndin Studio um Ljósmyndadaga á Seyðisfirði. Á sumrin leggjast sum þessara verkefna í dvala og bærinn gerir sig til fyrir öflugan straum ferðamanna. Seyðisfjörður er í senn afskekktur og tengdur; hann hefur einu ferjutengingu til meginlands Evrópu en eina tenging bæjarins við nærliggjandi bæi og hringveginn er Fjarðarheiði sem oft er ófær á veturna. Þetta skapar sérstaka tvískiptingu einangrunar og tengsla.
Gestavinnustofa Skaftfells gefur listamönnum tækifæri á að kafa ofan í eigin listsköpun sem og tíma til sameina allar hliðar daglegs lífs og skapandi ferlis. Listamenn eru ekki skuldbundnir til þess að skila af sér lokaútkomu að lokinni vinnustofudvöl heldur er listamönnum boðið að deila vinnu sinni með samfélaginu á þann máta sem hentar þeirra ferli. Sú uppákoma gæti verið í formi listamannaspjalls, vinnusmiðju, gjörnings, pop-up sýningar eða opinnar vinnustofu.
Fyrir hverja
Listamenn sem starfa í öllum miðlum. Einstaklingar eða hópar – allt að þrír listamenn geta sótt um saman sem hópur.
Gisting og vinnurými
Húsnæði á vegum Skaftfells býður ýmist upp á íbúð fyrir einstakling með vinnuaðstöðu eða íbúð sem tveggja eða þriggja manna hópur getur deilt hvort sem hópurinn vinnur að sameiginlegu verkefni eða hver að sínu.
Listamennirnir dvelja í tveimur húsum í bænum í göngufæri frá Listamiðstöð Skaftfells. Hvert hús býður upp á sérherbergi og aðstöðu fyrir eldamennsku og sameiginlega stofu og vinnurými. Hver íbúð rúmar 1-3 listamenn í einu. Ein íbúðanna er staðsett fyrir ofan sameiginlega prentverkstæðið sem Skaftfell er hluti af og hin íbúðin er staðsett á þriðju hæð Skaftfells, fyrir ofan sýningarsalinn.
Auk vinnuaðstöðu í íbúðum býður Skaftfell listamönnum að vinna í nýstofnuðu sameiginlegu prentverkstæði sem ber heitið Prentverk Seyðisfjörður. Verkstæðið býður upp á faglega prentunaraðstöðu með plássi og búnaði fyrir intaglio (línóskurð, tréskurð, ætingu), letterpress og ýmsa hand-prenttækni.
Samfélagsþátttaka
Listamenn hafa tækifæri til að kynna verk sín í opinni vinnustofu, listamannaspjalli eða halda námskeið. Við aðstoðum og hvetjum listamenn til að kynna verk sín fyrir samfélaginu eða tengjast því út frá eigin listsköpun.
Lengd
6 eða 12 vikur
Tímabil
Janúar – Júní 2026
Kostnaður
- 6 vikna gestavinnustofa fyrir einstakling í sameiginlegu húsnæði og vinnuaðstöðu með sérherbergi 130.000 kr.
- 6 vikna gestavinnustofa fyrir hópa allt að 3 listamenn sem deila húsnæði og vinnuaðstöðu með sérherbergjum 180.000 kr
- 6 vikna gestavinnustofa fyrir einstakling í sér húsnæði, tilvalið fyrir fjölskyldur t.d. 180.000 kr.
- 12 vikna gestavinnustofa fyrir einstakling í sameiginlegu húsnæði og vinnuaðstöðu með sérherbergi 240.000 kr.
- 12 vikna gestavinnustofa fyrir hópa allt að 3 listamenn sem deila húsnæði og vinnuaðstöðu með sérherbergjum 320.000 kr
- 12 vikna gestavinnustofa fyrir einstakling í sér húsnæði, tilvalið fyrir fjölskyldur t.d. 320.000 kr.
Innifalið í verðinu er húsnæði, vinnustofurými, aðgangur að prentverkstæðinu og stuðningur frá frá starfsfólki Skaftfells.
Ferðakostnaður, verkefnakostnaður og máltíðir greiðast af listamanninum.
HVERNIG Á AÐ SÆKJA UM
Vinsamlegast skilið inn umsókn ásamt fylgigögnum í gegnum rafræna umsóknarkerfið okkar (ýtið á slóðina fyrir neðan). Umsóknarfrestur rennur út þann 31.maí næstkomandi.
Fylgigögn með umsókninni:
- Ferilskrá listamanns og stutt lýsing á listamanni
- Verkefnistillaga (hámark 1 bls)
- Nokkur valin verk
Umsóknarferli
Umsóknirnar verða skoðaðar af nefnd sem samanstendur af tveimur listamönnum auk forstöðumanns Skaftfells og umsjónarmanni gestavinnustofu.
Viðmið
Listrænt gildi umsóknar, staðbundinn samhljómur og möguleg samvirkni við samhengi Skaftfells, hagkvæmni vinnutillögunnar, hæfni umsækjanda til að starfa sjálfstætt á faglegum vettvangi. Til að tryggja jafnræði við val okkar á listafólki leggjum við áherslu á inngildingu. Valdir umsækjendur fá svar í júlí 2025.
Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við residency@skaftfell.is