Jessica Auer: Heiðin

15.4.2024 — 8.6.2024

Opnun: Laugardaginn 13. apríl, kl.16.00 – 18.00

Sýningin samanstendur af nýlegum ljósmyndum og vídeóverkum eftir kanadíska ljósmyndarann Jessicu Auer sem búsett er á Seyðisfirði.
„Heiðin“ er yfirstandandi verkefni sem kannar sögu og þróun vegs 93, hæsta fjallvegar á Íslandi og einu landleiðina til og frá Seyðisfirði. Á veturna er vegurinn lokaður dögum saman og einangrar íbúa frá vistum og restinni af samfélaginu. Þessi einstaki lífsmáti, einangraður og ótryggur, er í róttækum breytingum þar sem 13 kílómetra jarðgöng munu brátt leysa Fjarðarheiði af hólmi.
„Heiðin“ skrásetur þessa mikilvægu breytingu í gegnum mismunandi miðla; kvikmyndun, ljósmyndun og frásagnir frá undanförnum árum.

Árið 2021, þegar fréttir bárust af því að jarðgöng til Seyðisfjarðar yrðu gerð undir Fjarðarheiði, byrjaði Jessica Auer ósjálfrátt að ljósmynda meðfram veginum sem göngin munu leya af hólmi. Á meðan íbúar Seyðisfjarðar færast nær nýjum raunveruleika, hefur Jessica verið að skoða hvernig þessar yfirvofandi breytingar velda því að fólk hugleiðir upplifun sína af landslaginu þegar það horfir til framtíðar.