Home » 2018

K a p a l l

Á sýningunni er varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði.

Flug orðanna á vængjum rafmagnsstraumsins kippir svo að segja burt öllum fjarlægðum og vegalendum milli þeirra, er saman ná að tala gegnum símann, eða skeytum skiftast, og gerir mönnum þannig svo afarmikið hægra fyrir og fljótlegra að koma erindum sínum en vér höfum átt að venjast, að við það verður mýmargt létt sem áður var ómögulegt, eða alt of erfitt.

Þannig komst Hannes Hafstein fyrrum ráðherra að orði við vígsluathöfn Landsímans í Reykjavík árið 1906. Seyðisfjörður var landtökustaður sæstrengsins sem kom á símasambandi á Íslandi og var mikilvægur hlekkur í fjarskiptasögu landsins, hann var líflínan sem tengdi Ísland við umheiminn. Við lifum í tæknivæddum heimi og fáar ef nokkrar tæknibyltingar hafa haft jafn gríðarleg áhrif á samskipti manna og rafvæðingin á 19. öld. Talsími, jarðsími, sæsími, símskeyti, loftskeyti, örbylgjur, gsm-símar, tölvupóstur, internet, ljósleiðari og stafræn tækni eru allt dæmi um þróun rafvæðingarinnar og það upplýsingaflæði sem einkennir líf okkar í dag. Tæknin tengir okkur við umheiminn, hefur áhrif á tímaskynjun og gerir okkur auðveldara að tengjast hvert öðru en getur á sama tíma aukið á fjarlægð í samskiptum fólks. Þessi veruleiki, sem listamennirnir á sýningunni K a p a l l takast á við hver á sinn hátt, kallast þannig á við framsýna hugsun Hannesar Hafsteins fyrir rúmum hundrað árum síðan.

Sýningarstjórar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir.

Sýningin er unnin í nánu samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands.

/www/wp content/uploads/2018/03/kapall logos