Nína Magnúsdóttir: Lines of Flight | Hársbreidd

26. nóvember 2022 – 29. janúar 2023

Skaftfell sýningarsal, Austurvegur 42, Seyðisfjörður

Opnun: 26. nóvember, 2022, kl. 16:00 – 18:00

Opnunartími: Þriðjudaga til sunnudaga kl.17:00 – 22:00, lokað mánudaga

Rúmlega 20 ný verk eftir Nínu Magnúsdóttur sem búsett er á Seyðisfirði, verða sýnd á sýningu sem ber yfirskriftina Hársbreidd og verður opin í sýningarsal Skaftfells frá 27. nóvember 2022 til 29. janúar 2023.

Verkin voru gerð í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 sem leiddu til tímabundinnar rýmingar Seyðisfjarðar. Listakonan og fjölskylda hennar gátu ekki snúið aftur til heimilis síns og vinnustofu í nokkra mánuði og dvöldu í bryggjuhúsi Roth fjölskyldunnar á Seyðisfirði. Þetta tímabil neyðarflutninga var tími uppgjörs og leitar að stöðugleika á óvissutímum.

Ólíkt fyrri verkum hennar í málaralist og öðrum miðlum, notar Nína hár sem efnivið í nýjustu verkum sínum; aðferð sem þróaðist áreynslulaust út frá hugmyndinni um hár sem hluta af líkamanum en einnig efni sem er aðskilið honum. Líkt og aðrar lífrænar trefjar eins og ull eða silki, hefur hár innri uppbyggingu sem tengist hverjum einstökum uppruna. Við gerð verkanna tóku hinir hárfínu þræðirnir á sig karakter línuteikninga. Sum verkanna sýna þrívíðar “línur” hársins á móti grófu, hvítu yfirborði, á meðan önnur nota liti í óhlutbundnum blæbrigðum sem leika sér með spennuna milli jákvæðs og neikvæðs rýmis.

Ferlið við gerð verkanna fól í sér samspil mynstranna sem myndast af þráðunum og fíngerðrar meðhöndlunar listamannsins á þeim: tilviljun og vilji mætast á yfirborði strigans. Nína bendir á: “Þetta snýst ekki um að beita hugmyndafræðinni og þvinga hárið undir mína stjórn; heldur frekar að koma einhvers konar reglu á ringulreiðinni og kanna nýja tegund af formi.”

Í gegnum söguna hefur hár haft menningarlega og táknræna þýðingu í bókmenntum, goðafræði, þjóðsögum, myndlist og dægurmenningu. Í vestrænum sið hefur hár tengst kvenlegri fegurð, munúð og krafti. Það felur í sér nánd og er persónulegt en er jafnframt opinbert og pólitískt. 

Um listamanninn 

Nína Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í myndlist við Goldsmiths College í London. Verk hennar hafa verið sýnd á Íslandi og um alla Evrópu, þar á meðal sameiginlega innsetningin Sirkus, sem sett var upp á Frieze Art Fair í London 2008. Fyrir utan listiðkun sína hefur Nína staðið fyrir fjölda sýninga, þar á meðal íslenska skálanum á 56. Feneyjatvíæringnum árið 2015, með verkinu MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, eftir svissneska listamanninn Christoph Büchel. Á árunum 2006-09 starfaði Nina sem framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins í Reykjavík. Hún var meðstofnandi listamannarekna gallerísins Kling og Bang frá 2003-09 og forstöðumaður afleggjara þess, Klink og Bank frá 2004-05. Hún hefur starfað sem kennslustjóri LungA skólans og situr nú í stjórn Skaftfells á Seyðisfirði.

Sýningin er styrkt af Múlaþingi, Sóknaráætlun Austurlands og Stjórnarráði Íslands.