Nýtt fagráð tekið til starfa

Í byrjun árs tók formlega til starfa fagráð innan Skaftfells sem markar listræna stefnu og grundvallarforsendur varðandi sýningarhald, gestavinnustofur og fræðslustarfsemi. Fagráðið er skipað af Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Listaháskóla Íslands og Listfræðifélagi Íslands. Í nýskipaða ráðinu sitja Bjarki Bragason, Karlotta Blöndal og Oddný Daníelsdóttir til tveggja ára.

Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt fyrirkomulag er innan miðstöðvarinnar. Fagráð tekur við af heiðursstöðunni listrænn stjórnandi sem var skipað til tveggja ára og var við lýði síðan 2009. Fyrstur í röðinni var Björn Roth, þá Christoph Büchel, í kjölfarið Ráðhildur Ingadóttir og að loks Gavin Morrison. Stjórn Skaftfells þakkar upptöldum aðilum kærlega fyrir þeirra framlag til framþróunar á starfsemi miðstöðvarinnar.

Fagráðið er innleitt af nokkrum ástæðum, m.a. til að efla samtal og samstarf við faggeirann og hið síbreytilega starfsumhverfi, auk þess að uppfylla skilyrði í rekstrarsamningi við Samband sveitafélaga á Austurlandi og Seyðisfjarðarkaupstað sem var undirritaður í júní 2015, til 5 ára.

Kjarnastarfsemi Skaftfells er sýningarhald í sýningarsalnum. Nú þegar hafa opnað tvær sýning, Koma með nemendum Listaháskóla Íslands og Þögul athöfn eftir ungu listakonunni Hönnu Kristínu Birgisdóttur sem opnaði 15. apríl. Yfir sumartímann verður til sýnis lokaáfanginn í evrópska vistfræði rannsóknarverkefninu Frontiers in Retreat, Jaðaráhrif, með haustinu opnar Margrét H. Blöndal einkasýningu og árinu lýkur með hópsýningu athafnasamra listamanna: Claudiu Hausfeld, Elísabetu Brynhildardóttur, Evu Ísleifsdóttur og Sindra Leifssyni. Samhliða verða haldnir ýmis viðburðir í tengslum við gestalistamenn og sívaxandi fræðslustarfsemi.

Nánar um meðlimi fagráðsins

Bjarki Bragason hefur verið virkur á fagvettvangi bæði innanlands sem erlendis, auk þess sem hann hefur nokkra reynslu af sýningarstjórnun. Hann er virkur listrannsakandi og hefur töluverða reynslu af kennslu á háskólastigi auk fjölbreyttrar stjórnunarreynslu á sviði myndlistar. Bjarki lauk meistaraprófi í myndlist frá California Institute of the Arts, CalArts í Los Angeles og bakkalárprófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands, en árið 2005 stundaði hann nám við Universität der Künste í Berlín. Bjarki gegnir stöðu lektors og fagstjóra bakkalárnáms við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Karlotta Blöndal er myndlistarmaður sem starfar í mismunandi miðlum og birtast verk hennar í ólíku samhengi. Meginviðfangsefni myndlistar Karlottu hefur verið hugmyndin um frumgerð og eftirgerð og efniviðurinn sem slíkur og eru verk hennar eru oft rýmistengd. Karlotta útskrifaðist frá Listaakademíunni í Malmö 2002 og býr nú og starfar í Reykjavík.  Auk þess að vera starfandi myndlistarmaður tekur hún reglulega þátt í listamannsreknum verkefnum. Hún hefur bæði ritstýrt og verið meðútgefandi tímaritsins Sjónauka (tímarit um myndlist og fræði) og kemur reglulega að myndlistarkennslu. Hún er meðlimur í þverfaglega samstarfinu Könnunarleiðangurinn á Töfrafjallið, 2013-2020.  www.karlottablondal.net

Oddný Björk Daníelsdóttir fæddist 1986 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2006. Vorið 2011 útskrifaðist Oddný frá Háskóla Íslands með B.A. próf í listfræði með bókmenntafræði sem aukagrein. Þar af tók hún eitt ár í skiptinámi í Utrecht University í Hollandi. Oddný hóf meistaranám í listfræði í Háskóla Íslands en tók sér frí frá námi og á einungis meistararitgerð sína eftir en hún var byrjuð að rannsaka sýningastjórnun í myndlistarlífi Íslands. Oddný er einn af stofnendum Artíma Gallerí sem var gallerí listafræðinema við H.Í. rekið út frá sjónarhorni sýningastjóra. Oddný sat í stjórn félagsins 2012-2013 þar sem hún m.a. sá um skipulagningu og fjármögnun auk þess að sýningastýra á annan tug sýninga þar. Haustið 2013 fluttist Oddný til Seyðisfjarðar og hefur síðan unnið við ýmis tilfallandi verkefni á vegum Skaftfells, þ.á.m. við uppsetningu sýninga og við bókhald. Oddný hefur unnið við skrifstofustörf síðustu ár á Hótel Öldunni en er nú sölustjóri Skálanesseturs.