Home » 2015

Raunverulegt líf

Sýningarstjóri Gavin Morrison

…as though literature, theatre, deceit, infidelity, hypocrisy, infelicity, parasitism, and the simulation of real life were not part of real life!*

Þessi sýning fjallar um líf raunverulegs fólks, þó um nokkuð óvenjulegt fólk sé að ræða. Hér eru á ferðinni íslenskur listamaður, svissneskur skíðastökkvari, sænskur pólfari og norskur heimspekingur. Þátttakendur sýningarinnar, listafólk og kvikmyndagerðarmenn, setja fram verk um þessa ólíku einstaklinga. Verkin eru sumpart ævisöguleg en ekki ævisögur í hefðbundnum skilningi. Þau segja sögur þessa fólks út frá ákveðnum og oft einkennilegum sjónarhornum. Óvissa er tíð, stundum vegna skáldskapar eða ásetnings en líka vegna ferlisins sem fer af stað þegar einstaklingur verður að viðfangsefni. Fallvaltleiki minnis, fjarvera og/eða túlkun staðreynda og persónuleg frásögn gerir það að verkum að áhorfandi skynjar sífellt að það eru önnur sjónarhorn í boði en þau sem hér eru borin á borð. Þessi uppsöfnun brota og fallvaltleika opnar lendur frjálsar sköpunar og ímyndunarafls, svæði á mörkum mýtu og heimildamyndagerðar.

Listamennirnir á sýningunni smokra sér inn í þilið sem liggur á milli viðfangsefnisins sjálfs og þeirra eigin túlkun – þeir kljást við flækjuna sem myndast þegar persónuleg nálgun á við raunverulegt viðfang. Önnur vídd bætist svo við þegar einstaklingarnir sem fjallað er um hafa hver á sínu sviði mismikla opinbera nærveru. Myndin sem dregin er upp í þessum verkum er oft óhefðbundin og óvænt. Frávik eiga sér stað annaðhvort í gegnum skáldaðar viðbætur við sögur þeirra eða þegar athyglinni er beint að lítt þekktum atriðum og staðreyndum um einstaklingana sem almenningur vissi ekki áður og á kannski ekki að venjast þegar þessi viðfangsefni eiga í hlut. Þessi frávik staðfesta bæði óstöðuleika ævisöguformsins og gefa áhorfendum tækifæri til að endurhugsa það sem talið er vitað um viðfangsefnin. Með sýningunni er ekki verið að setja fram heimildir né heildstæðar ævisögur. Leitast er við að gera að umfjöllunarefni óræða þætti ævisögulegrar frásagnar og sérstaklega hvernig þeir geta sett úr skorðum skynjun og skilning sem svo aftur leiðir hugann að því hvernig yfirhöfðuð maður getur skilið aðra manneskju, gjörðir hennar og líf.

Myndbandverk Ceciliu Nygren frá árinu 2012, My Dreams Are Still About Flying fjallar um Walter Steiner, söguhetjuna í heimildamynd Werner Herzogs The Great Ecstasy of Woodcarver Steiner (frá 1974). Steiner var skíðastökvari á heimsmælikvarða og hafði að áhugamáli útskurð í tré.

Í mynd Nygren hittum við Steiner fyrir í norður Svíþjóð þar sem hann vinnur sem húsvörður í kirkju og rifjar upp tímann í skíðastökkinu. Verkið gæti í vissum skilningi virkað einsog viðbót við mynd Herzogs, upprifjun á lífshlaupi þar sem litið er um öxl frá fjarlægum sjónarhóli. Í verkinu einnig er velt upp hugleiðingum um eðli ævisögulegra heimildamynda.

Lucia Simek hefur gert röð verka í mismunandi miðla, um ill örlög leiðangurs Salomon August Andrée (1854-97) sem gerði tilraun til að fljúga loftbelg yfir norðurpólinn. Hann og félagar hans lifðu af fyrstu brotlendingu loftbelgsins á ísnum en náðu ekki til baka í bækistöðvar sínar á Svalbarða og fórust á óbyggðri eyju í eyjaklasanum. Verk Simeks endurspegla hve of-heiðraður Andrée og þessi leiðangur var, hann notar óhjákvæmilega brotakennd smáatriði í sambandi við ófarirnar til að skapa gljúpan söguþráð.

Innblásturinn að verkum Arild Tveito er áhugi hans á norska heimspekingnum Peter Zapffe (1899-1990). Zapffe var afgerandi áhrifavaldur í norskri tómhyggju og mikill fjallgöngugarpur. Verkin dvelja á skurðpunkti heimspeki hans og annarra skapandi starfa, ljósmyndun og teikningu. Tveito hefur m.a. unnið með heimildarsafn Norsku þjóðarbókhlöðunnar um Zapffe.

Mynd Ragnheiðar Gestsdóttur & Markúsar Þórs Andréssonar æ ofaní æ (2014) er skáldað verk byggt á myndlistarmanninum Hreini Friðfinnssyni. Súrrealísk stef og vísindalegur bragur einkenna myndina sem spinnur sögu í kringum tvíbura sem voru aðskildir við fæðingu. Annar elst upp til fjalla á Íslandi en hinn við sjávarsíðuna í Hollandi. Myndin vefur sannleika inn í skáldskapargrisju og veltir upp hugmyndum um óstöðugleika tímans, rýmis og afleiðingum þessa á sjálfsvitundina.

Verk Hreins Friðfinnssonar flokkast almennt séð hugmyndalist, þau eru oft gerð úr fundnum efniviði sem lítið er búið að eiga við að öðru leiti en að setja þau í óvænt samhengi. Verkin eru oft tvinnuð minningum, ekki alltaf hans eigin, og hugleiðingum um það hvernig tíminn hefur áhrif á uppbyggingu og leikur sér innan hennar og brýtur upp. Verkin segja sögur og nota sögur til að segja aðrar sögur. 

Raunverulegt líf er hluti af utandagskrá Sequences Real-Time Art festival og stendur til 21. júní 2015. Miðstöðin er opin daglega og aðgangur er ókeypis.

Æviágrip listamanna

Arild Tveito er fæddur í Noregi árið 1976. Hann lærði í Osló, Kokkola, Vín og í Münhcen. Hann er stofnfélagi listahópsins Institutt for degenerert kunst og meðal nýlegra sýningaverkefna hans eru sýning í CCA, í Glasgow, Skotlandi, verk á Listahátíð í Reykjavík, sýning í Northern Norwegian Art Centre, í Svolvær, í the Institute of Social Hypocrisy, í París, Kunsthall Osló í Osló, Galleri annen etage í Osló, Secession í Vín og WIELS verkefnarými í Brussel. 

Cecilia Nygren er fædd í Svíþjóð árið 1980 og býr og starfar í Stokkhólmi. Hún hlaut MFA gráðu frá Konunglega Listaháskólanum þar árið 2012 og hefur dvalið og starfað í Banff Centre, Visual Arts Studio Work Study Program í Kanada árin 2009-10. Meðal nýlegra sýninga eru einkasýning í Salzburger Kunstverein, í Austurríki árið 2013 og samsýningar m.a. í Moderna Museet í Stokkhólmi, Art Space í Helsinki, Ottawa Art Gallery í Kanada og 1-20 Gallerí í New York.

Lucia Simek er fædd í Bandaríkjunum árið 1981. Hún starfar sem myndlistamaður, sýningastjóri og rithöfundur. Hún hlaut MFA gráðu í höggmyndalist frá Texas Christian University árið 2014 og gerði nýlega sýningu ásamt Kristen Cochran í Dallas Contemporary í Texas, hún hefur einnig sýnt í Field Projects í New York, Dallas Museum of Art, Fort Worth Contemporary Arts, 500x í Dallas. Simek er einnig einn af stofnendum the Dallas collective, the Art Foundation.

Hreinn Friðfinnsson er fæddur árið 1943 á Íslandi en býr og starfar í Amsterdam. Hann er einn af stofnendum SÚM í Reykjavík árið 1965 og var þar með virkari meðlimum. Hreinn hefur sýnt víða, meðal nýlegra einkasýninga hans er þátttaka í 45. Feneyjar tvíæringnum árið 1993, hann hefur sýnt í Listasafni Íslands sama ár, Institute of Contemporary Art í Amsterdam árið 1992, í Serpentine Gallery í London árið 2007, í Malmö Kunstahall í Svíþjóð árið 2008 og í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 2014 samhliða sýningu myndarinnar æ ofaní æ eftir Ragnheiði Gestsdóttur og Markús Þór

Ragnheiður Gestsdóttir, myndlistar- og kvikmyndargerðarkona, fædd 1975 og Markús Þór Andrésson, sýningastjóri, fæddur 1975, hafa starfað saman að fjölda verkefna undir hatti Lófa síðan árið 2003. Meðal sameiginlegra verkefna eru myndirnar æ ofaní æ, frá 2014, Eins og við værum frá 2010 og Steypa frá 2007. Verk þeirra hafa verið sýnd m.a. í Göteborgs Konsthall, í Nýlistasafninu í Reykjavík, í Listasafni Reykjavíkur, í Miami Museum of Contemporary Art og The Institute of Contemporary Art í Boston, ásamt því að hafa verið sýnd á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða. Ragnheiður Gestsdóttir hlaut MFA gráðu frá Bard College árið 2012 og MA í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College árið 2001. Meðal nýlegra sýninga eru einkasýning í Kunstschlager í Reykjavík 2014 og samsýningar í Franklyn Street Works í Connecticut, Family Business í New York og Listasafni Reykjavíkur ásamt því að taka þátt í Sequences VI árið 2013. Markús Þór Andrésson hlaut MA gráðu frá Center for Curatorial Studies at Bard College árið 2007 en BA frá Listaháskóla Íslands. Markús hefur stýrt Sequenses listahátíðinni og stýrir nú nýrri grunnsýningu í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík.

Styrktaraðilar

Sýningin er styrk af Seyðisfjarðarkaupstað, Uppbyggingarsjóði Austurlands, Skrifstofu samtimalista í Noregi og Norska listaráðinu.


*Jacques Derrida, Limited Inc (Evanston: Northwestern University Press, 1988) bls. 90.