Velkomin listakona Olivia Louvel

Olivia Louvel er bresk listakona, tónskáld og rannsakandi, fædd í Frakklandi. Hún vinnur með raddir, tölvugerða tónlist og stafrænar frásagnir. Verk hennar eru upptökur, gjörningar, hljóðinnsetningar og vídeólist. Vinna hennar byggist á langvinnum rannsóknum á röddum, sungnum og töluðum, og hvernig megi vinna stafrænt með þær til tónsmíða. Hún er í doktorsnámi við Brighton-háskóla og rannsakar samspil raddar og skúlptúrs við hljóð- og myndlistadeild skólans.

Árið 2020 endurhljóðsetti hún upptöku eftir breska skúlptúristann Barböru Hepworth og beitti lögmálum skúlptúrsins á rödd Hepworth til að stjórna áferð hennar, afhjúpaði sjálft raddefnið sem leiddi oft til abstrakt útkomu. The Sculptor Speaks var fyrst sýnt á Resonance Extra í víðóma útgáfu og í kjölfarið kom hljóð- og myndræn innsetning á The Hepworth Wakefield árið 2021, fyrir sýninguna Barbara Hepworth: Art & Life. The Sculptor Speaks var tilnefnt til Ivor Novello-verðlaunanna í hljóðlistarflokki á Ivors Composer Awards 2020. 

Meðan á dvöl Oliviu stendur mun hún rannsaka Tvísöng Lukasar Kühne, hvernig röddin virkar sem tól til að skynja og upplifa innviði skúlptúrsins og hvernig hún virkjar hann. Skúlptúr er oft eingöngu álitinn vera þrívítt form sem megi ganga í kringum, það er mjög sjaldan sem okkur er boðið að ganga inn. Í tilfelli Tvísöngs er um að ræða vissan áþreifanleika skúlptúrsins, líkamar þeirra sem upplifa hann eiga í samskiptum við hann og skapa heildstæða skynreynslu að innan frá, innan úr skúlptúrnum. 

Dvöl Oliviu er styrkt af Henry Moore-sjóðnum.