Home » 2017

Rithöfundalest(ur) á Austurlandi

Árviss rithöfundalest er samkvæmt hefð fyrstu helgi í aðventu. Lestin fer um Austurland dagana 30. nóv. til 2. des og stoppar á Seyðisfirði laugardaginn 2. des. kl. 20:30.

Á ferð verða kunnir höfundar með nýjustu verk sín. Austfirska verðlaunaskáldið Jónas Reynir Gunnarsson les úr skáldsögunni Millilendingu, sem bókaútgáfan Partus gefur út, og annar austfirskur höfundur, Hrönn Reynisdóttir kemur með annað bindið um hina ótrúlegu Kolfinnu, Nei, nú ertu að spauga, Kolfinna! sem Bókstafur gefur út. Valur Gunnarsson fjallar um hernám Þjóðverja á Íslandi í Örninn og fálkinn sem kemur út hjá Forlaginu og Friðgeir Einarsson, les úr skáldsögu sinni um Formann húsfélagsins sem Bókaútgáfan Benedikt gefur út.

Sérstakur gestur er Fríða Ísberg en með í för verða einnig austfirskir höfundar frá forlaginu Bókstaf.

[box]Aðgangseyrir 1000 kr. en 500 kr. fyrir börn og eldri borgara. Posi á staðnum.[/box]

Að rithöfundalestinni standa Menningarmálanefnd Vopnafjarðar, Gunnarsstofnun, Skaftfell menningarmiðstöð og Umf. Egill Rauði. Lesið verður á Vopnafirði í Kaupvangskaffi fimmtudagskvöld 30. nóv. kl. 20. Föstudagskvöldið 1. des verður lestin í Safnahúsinu í Neskaupstað kl. 20 og laugardaginn 2. des. verða höfundarnir á Skriðuklaustri kl. 14 en um kvöldið lesa þeir í Skaftfelli á Seyðisfirði kl. 20.30.

rith_logo