Samkoma handan Norðanvindsins

Við erum Hyperbórearnir, við þekkjum það vel hversu afskekktur staður okkar er. Hvorki um láð né lög ratar þú leiðina til Hyperbóreanna: Jafnvel skáldið Pindar vissi minnst, á sínum tíma. Handan Norðursins, handan ísanna, handan dauðans – líf vort, hamingja vor.
– Friedrich Nietzsche, Antichrist (útgefið 1859)

Gríska skáldið Pindar lýsti Hýperbóreu sem goðsagnakenndu landi staðsettu fyrir handan Bóreu norðanvindsins. Það þótti ímynd hins fullkomna lands, dagsbirtu naut ávallt við og íbúarnir náðu þúsund ára aldri í algerri hamingju. Grundvöllinn fyrir þessum ímyndaða stað má rekja til raunverulegra landa í norðri. Með sýningunni, og viðburðadagskrá henni tengdri, munu listamenn fjalla um norðrið og hvernig sögur umbreytast og hliðrast til við hverja endurfrásögn. Staðir og goðsagnir verða til við krossgötur þar sem munnmæla hefðin mætir gjörningum í samtímanum.

Boðið verður upp á viðburðadagskrá m.a. með gjörningum og kvikmyndasýningu samhliða sýningunni. Þann 12. júlí munu Ásta Fanney Sigurðardóttir og Styrmir Örn Guðmundsson flytja röð gjörninga víðvegar um Seyðisfjörð. Seinna um sumarið verður sýnd mynd eftir Luke Fowler og Nora Joung flytur gjörning. Seint í júlí mun raddskúlptúrinn Ævintýri eftir Magnús Pálsson verða fluttur. Magnús er fæddur 1929 á Eskifirði og er einn áhrifamesti listamaður sem Ísland hefur alið. Magnús hefur starfað ötullega að listiðkun í sex áratugi og ávallt á mörkum myndlistar, tónlistar og leiklistar. Raddskúlptúrinn byggist á ítalskri sögu þar sem garðyrkjumaður gengur fram á lík á akri nokkrum og býr um líkið. Þegar hann snýr aftur til vinnu daginn eftir er líkið horfið.

Sýningarstjóri Gavin Morrison, ásamt Ráðhildi Ingadóttur.

Æviágrip

Ásta Fanney Sigurðardóttir fæddist árið 1987. Hún útskrifaðist með B.A. próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og hélt sína fyrstu einkasýningu ári síðar. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér heima og erlendis og komið fram bæði á ljóða- og tónlistarhátíðum. Hún vinnur oft á mörkum tónlistar, hljóðlistar, gjörninga og ljóða og tvinnar gjarnan saman hinum ýmsu miðlum.

Tónlistarkonan Steinunn Harðardóttir, öðru nafni dj. flugvél og geimskip, sækir áhrif sín frá óravíddum geimsins. Tónlistin, sem jafnan er skilgreind sem hrollvekju-raftónlist með geimívafi, er blanda af gáskafullum takti, svölum bassa, hrifnæmum laglínum og söngtónum sem ná hæstu hæðum. Steinunn syngur um illgjarna ketti sem náð hafa yfirráðum heimsins, tilraunir geimvera, púka sem fela sig í skuggum og hinn undarlega heim sem leynist undir yfirborði sjávar. Framsetningin er lifandi, litrík og ljóðræn og tónlist hennar fæst við leyndardóma, drauma og hætturnar sem leynast á nóttunni. dj. flugvél og geimskip kemur ein fram á sviði umkringd hljómborðum og trommuheilum. Tónleikarnir eru undarleg blanda tónlistar, hrollvekju, ljóðalestri og leikhúsi. Stemmningin er dregin fram með frásögnum sagna milli laganna, með notkun reykjelsa, reyks, ljósa og leikhúss. Áhorfendur skilja við tónleikana í draumkenndu ástandi eða með þá upplifun í farteskinu að hafa ferðast út í geim. dj. flugvél og geimskip gaf nýverið frá sér sína þriðju plötu Nótt á hafsbotni þar sem umfjöllunarefnið er djúpsævið. Síðasta platan hennar Glamúr í geimnum fjallaði um töfra geimsins. Nótt á hafsbotni er mun þyngri plata en Glamúr í geimnum en takturinn er dansvænni og laglínurnar undir áhrifum asískrar tónlistar t.d. frá Indlandi og Sýrlandi. Platan hlaut tónlistarverðlaun Kraums árið 2015, var tilnefnd til bestu popp plötunnar á íslensku tónlistarverðlaununum 2015 auk þess að hafa fengið glimrandi dóma frá tónlistartímaritinu Uncut og The Arts Desk auk annarra.

Frásagnasafnið 2011-2012 var tveggja ára söfnunar verkefni sem Skaftfell stóð fyrir. Tilgangurinn var að safna frásögnum allra íbúa Seyðisfjarðar á tímabilinu og varðveita eins konar svipmyndir sem saman gefa heildstæða mynd af samfélaginu. Alls söfnuðust 214 frásagnir.

Luke Fowler (f. 1978, Glasgow) er listamaður, kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður sem býr og starfar Glasgow. Í verkum sínum kannar hann takmörk og hefðir heimildamynda og kvikmynda í ævisögulegum stíl og hafa verk hans oft verið líkt við bresku heimildamyndahreyfinguna á 6. áratugnum. Fowler skeytir saman gamla filmubúta, ljósmyndir og hljóð og skapar þannig forvitnilegar svipmyndir  af mönnum úr menningargeiranum sem fóru iðullega  á móti viðteknum venjum, þar á meðal skoski sálfræðingurinn R. D. Laing og enska tónskáldið Cornelius Cardew.

Helgi Örn Pétursson, 1975, er fæddur í Reykjavík. Hann hefur verið búsettur á Seyðisfirði síðan 2006 en hann lauk B.A. prófi frá Listaháskóla Íslands sama ár. Helgi Örn vinnur í fjölmarga miðla en þar má helst nefna gjörninga, hljóð og teikningu. Í verkum sínum vinnur Helgi Örn gjarnan með öðrum listamönnum og dansa verkin þá oft á mörkum myndlistar, tónlistar, dans og leikhúss. Helgi Örn hefur að auki sinnt sýningastjórn, leikmyndahönnun, kennslu, hönnun og öðrum verkefnum er tengjast myndlist.

Jesper Fabricius er fæddur 1957 í Rudkøbing í Danmörku. Hann er meðstofnandi útgáfuhússins Space Poetry frá árinu 1980 og listtímaritsins Pist Protta 1981. Fabricius nam kvikmyndaklippingu við Danska kvikmyndaskólann á árunum 1987-1991. Fabricius hefur sýnt víða, gefið út rit og bókverk og gert tilraunakenndar kvikmyndir.

Magnús Pálsson er meðal fremstu listamanna Íslands. Árið 1978 tók hann þátt í stofnun Nýlistasafnsins. Magnús er skúlptúristi, hljóðskáld, gjörningamaður og kennari en einn aðaláhrifavaldur hans var Flúxus hreyfingin en með henni ruddi hygmyndalistin og konkret-ljóðlistin sér leið. Með skúlptúrum sínum tókst Magnús á við samspil hins tvíræða og hinu áþreifanlega með því að búa til mót af negatíva rýminu og fanga þannig skammlíft augnablikið í hörðu gifsinu. Eitt þekktasta verk hans frá þessum tíma er rýmið milli þriggja hjóla Sikorsky-þyrlu steypt í mót sekúndubroti áður en hún lendir. Verkið gerði hann árið 1976 og var sýnt á Feneyjar-Tvíæringnum árið 1980 þegar Magnús var fulltrúi Íslands, en þetta var 37. Tvíæringurinn. Smám saman færði hann sig frá hlutbundnu efni yfir í meira flæði hljóða og atburðarása og eru með nýlegri verkum hans verk fyrir kóra, JCB gröfur, drauga og börn.

Nora Joung (f. 1989) lifir og starfar og er staðsett í rými (og tíma!). Hún útskrifaðist með M.A. frá Háskólanum í Osló. Verk hennar hverfast iðullega um sambandið milli tungumáls og hins myndræna: Þar sem annað þeirra gæti verið staðgengill hins og gefur til kynna táknfræðileg skipti og stöðuga baráttu um hvort er hinu fremra. Nora starfar einnig sem listgagnrýnandi.

Myndlist Ragnars Kjartanssonar er algjörlega knúin áfram á forsendum gjörningaformsins. Saga kvikmynda, tónlistar, leikhúss, sjónrænnar menningar og bókmennta finna sér leið inn í video-innsetningar hans, gjörningar sem teygja tímann, teikningar og málverk. Eitt af lykilatriðum í tilraunum Ragnars til að tjá einlæga tilfinningu og ósvikna upplifun áhorfenda er sviðsetning og leikur. Ragnar nam við Listaháskóla Íslands, hann er fæddur 1976 í Reykjavík þar sem hann býr og starfar í dag.

Styrmir Örn Guðmundsson er maður frásagna og gjörninga auk þess sem hann syngur, býr til hluti og teiknar. Hann laðast að hinu fjarstæðukennda að því leytinu til að hann hefur ástríðu sem jaðrar við þráhyggju fyrir hinu fáránlega, bjánalega eða skrítna, en á sama tíma hefur hann blítt og hugulsamt viðhorf gagnvart því: hann hugsar vel um hið fjarstæðukennda, hann hjálpar því að þroskast, hann gefur því rými þar sem það getur bæði orkað stuðandi og þægilegt. Styrmir stundaði listnám í Amsterdam og í kjölfarið hefur hann unnið á alþjóðlegum vettvangi bæði í galleríum og leikhúsi. Hann býr í Varsjá.

Samstarfsaðilar i8 gallerí og The Modern Institute

Sýning er styrk af

/www/wp content/uploads/2016/03/myndlistarsjodur

/www/wp content/uploads/2016/01/sl austurland vertical