Sjávarblámi: Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson

21. júní – 27. september
Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson
Sýningarstjóri Æsa Sigurjónsdóttir.

Opnun 21. júní kl. 16:00

Hvaða hvalir koma til íslands á sumrin?
Hvernig birtist virðing mannsins fyrir hvalnum í sögu og samtíma?
Slíkar spurningar hafa lengi heillað listamennina Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson en í verkum sínum rannsaka þau fjölþætt samskipti manna og annarra dýra. Í þessu nýja verkefni, á sýningunni Sjávarblámi, rekja þau ferðir einstakra hvala við Íslandsstrendur. Þau sigldu á haf út með vísindafólki sem kannar göngur og hljóðsvið hvala og kynntu sér hvernig síbreytileg umhverfisjónarmið byggja ætíð á gildismati mannsins. Þau rifja upp heimildir um hvalreka á Íslandi og erlendis og skoða söguleg ummerki hvalveiða í Seyðisfirði en hvalveiðistöðin á Vestdalseyri er talin ein fyrsta vélvædda hvalveiðistöð heims og upphaf iðnaðarhvalveiða á Íslandi. Eins og oft áður þá beina Bryndís og Mark sjónum að líkamleika og návist dýra í veröld sem manneskjan þarf að deila með öðrum lífverum. Með því að horfa á ummerki hvalsins með rannsóknaraðferðum myndlistar vekja þau áhorfendur til máls um tilverurétt hvala við Íslandsstrendur út frá fagurfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum.
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði, Austurbrú og Múlaþingi.