Tíra – Bjargey Ólafsdóttir

Gestalistakona Skaftfells í maí, Bjargey Ólafsdóttir, sýnir ljósmyndaseríu sem hún nefnir Tíra, í sýningarsalnum 2. hæð. Sýningin stendur til 30. maí. Aðgengt er í gegnum Bistróið sem er opið virka daga kl. 12:00-13:00 og 18:00-20:00 og um helgar kl. 18:00-20:00. Séu óskir um aðra heimsóknatíma er hægt að hafa samband við Skaftfell í síma 472 1632.

Bjargey Ólafsdóttir býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki. Hún nam ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam. Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Bjargey teiknar, málar, ljósmyndar, hún fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, bókverk og gjörninga.

Bjargey var tilnefnd til ljósmyndaverðlaunanna Deutsche Börse Photography prize og the Godowski Colour photography Award fyrir ljósmyndaseríu sína Tíru sem hún sýndi fyrst í Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2009 og sýnir nú hér í Skaftfelli. Seríuna ljósmyndaði Bjargey á Seyðisfirði í listamannadvöl í Skaftfelli árið 2008.

Tíra er unnin í samstarfi við Menningarstofu Fjarðarbyggðar og sýningin mun opna á Neskaupsstað í júní.

Bjargey hefur undanfarin ár sýnt list sína hér heima og erlendis. Til að mynda á Listasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Kunstverein Munich, KunstWerke Berlin, Galeria Traschi, Santiago Chile, Nútímalistasafninu í Stokkhólmi, Manifesta Foundation Amsterdam, XYZ Collective, Tokyo, Japan, The Moore Space Miami, Bandaríkjunum, Manifesta Foundation Amsterdam, Hollandi, Turku Biennale, Finnlandi, MEP, Paris, E-flux New York, WUK Kunsthalle, Vín, Austurríki, Tate Modern London, Palm Springs International film festival, Bandaríkjunum, Gothenburg Film Festival, Svíþjóð, Aix en Provence international short film festival, Frakklandi.

„Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Það má því líkja henni við alhliða hljóðfæraleikara því Bjargey fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, gjörninga, teiknar, málar og ljósmyndar. Í þetta skipti er það einmitt ljósmyndin sem hún beinir athyglinni að.

Sýningin Tíra er samansafn táknmynda sem hafa ýmist orðið til í draumum listamannsins eða sprottið fram í vitund hans milli svefns og vöku. Bjargey hrífur áhorfandann með sér inn í heim þar sem fegurð og hið andlega ræður ríkjum; þar sem jafn ólík atriði og hönd guðs, fjöll, töfrakassi, álfaskírnarfontur, slæður og teikningar af háhæluðum skóm koma við sögu, böðuð í dularfullu ljósi og fjölskrúðugum litum. Þrátt fyrir að hún haldi hér áfram að kanna lendur töfraraunsæis og súrrealisma eins og í fyrri verkum sínum, þá beinir Bjargey ekki sjónum sínum að manneskjunni sem slíkri heldur leitast fremur við að ljósmynda tilfinningu sem hefur fundið sér farveg í ofangreindum atriðum. Þar af leiðandi er sýningin ekki bundin saman af eiginlegum söguþræði heldur er eins konar flæði þar sem hægt er að gleyma stað og stund svífa um í tímaleysi eða algleymi.

Tíra fleygir áhorfandanum inn í hringiðu þar sem hugtök eins og dáleiðsla, heilun og sálnaflakk ráða ríkjum í heimkynnum sköpunar og innblásturs. Þessum heimi hins ósýnilega og andlega stillir Bjargey fram sem meðali gegn óhófi efnishyggjunnar sem hefur verið einkennandi lífsviðhorf á okkar dögum og beinir sjónum fólks að því að landamæri raunveruleikans eru kannski fremur fljótandi heldur en bein lína. Markmiðið er göfugt; hún leitast við að ljósmynda hið yfirnáttúrulega – jafnvel sjálfan guð. Og er hægt að ljósmynda hann og má það yfirhöfuð? Eins og Bjargeyju er eiginlegt í sinni listrænu vinnu þá gengur hún að viðfangsefninu fordómalaus og af einlægni og ekki hvað síst ljær því húmor og leik. Hvort sem guð er að finna í töfrakassanum, hvort sem hann er ljósgeisli innan um slæður í forgrunni fjallalandslags eða jafnvel inni í háhæluðu skónum, minnir Tíra okkur á taka eftir að lífsins dásemdir búa í huganum en eru hverfular í hendi …“

Jóhanna G. Árnadóttir