Tóti Ripper á Vesturvegg

23. október 2021 – 3. janúar 2022, Vesturveggur, Skaftfell Bistró

Opnunartími er í samræmi við opnunartíma Bistrósins.

Þórarinn Andrésson (f. 1968), eða Tóti Ripper, er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og er virkur innan listasenu bæjarins. Þegar Tóti var fyrst kynntur fyrir málaralistinni árið 2009 beið hann ekki eftir að fá pensil í hendurnar heldur notaði hann pappírs snifsi til að mála sín fyrstu verk. Þessi sami ákafi hefur verið gegnum gangandi í listsköpun hans síðan, þar sem hann sekkur sér inn í strigann án hugsana eða ásetnings. Landslög og fígúrur birtast fyrirvaralaust á striganum sem afsprengi djúprar einbeitingar þar sem ekkert annað kemst að. Umhverfið og hugarástand renna saman í eitt og skapa litrík form sem bjóða upp á nálgun frá mismunandi sjónarhornum. Sýningin býður upp á innsýn í myndheim Tóta í verkum sem spanna síðustu 12 ár.