RÓ RÓ

Sumarsýning Skaftfells 2014 ber heitið RÓ RÓ. Þar er stefnt saman hópi myndlistamanna sem eiga það sameiginlegt að vera í virkum tengslum við Seyðisfjörð. Sumir búa á staðnum, aðrir eiga húsnæði þar eða koma reglulega í fjörðinn. Til sýnis eru ný eða nýleg verk sem flest eru unnin á svæðinu eða bera vísun í staðin. Sýningin er staðsett í sýningarsal Skaftfells, utandyra og í rýmum víðvegar um bæinn. Ýmsir viðburðir tengdir sýningunni eiga sér stað yfir sumarið.

Titill sýningarinnar er vísun í þá kyrrð og það einfalda líf sem er listamönnum oft mikilvægt til að takast á við verk sín. Það finnst í miklum mæli á Seyðisfirði. Hann er einnig vísun í atvinnulífið á staðnum sem fiskveiðar eru stór hluti af. Í titlinum koma því saman tvö mikilvæg atriði sem stuðla að því sterka menningarlífi sem hefur þrifist í bænum, ekki aðeins síðustu ár, heldur í hundrað ár og lengur.

Sýningin er hugarfóstur Ráðhildar Ingadóttur, sem gegnir hlutverki listræns stjórnanda Skaftfells 2013-2014, sem er heiðursstaða.

Listamenn sýningarinnar hafa í gegnum tíðina verið nátengdir starfsemi Skaftfells. Flestir hafa sýnt í Skaftfelli, unnið þar, setið í stjórn, veitt ráðgjöf, stýrt sýningum, setið í valnefnd, dvalið sem gestalistamenn o.s.frv. Þessi mannauður býr yfir sérþekkingu sem Skaftfell getur leitað til og er bakland miðstöðvarinnar.

Svonefndur Skaftfellshópur kom starfsemi Skaftfells á koppinn árið 1998. Elsti þátttakandi sýningarinnar, Garðar Eymundsson, og kona hans Karólína Þorsteinsdóttir, gáfu hópnum húsið Skaftfell að Austurvegi 42 með þeim formerkjum að húsið yrði notað undir menningarstarfsemi. Skaftfellshópurinn var undir miklum áhrifum frá svissneska listamanninum Dieter Roth (1930-1998) sem hafði þá all mörgum árum áður komið sér fyrir í Bryggjuhúsinu á Seyðisfirði ásamt syni sínum og samstarfsmanni Birni Roth. Þessi kjarni er miðstöðinni mikilvægur stuðningur og stendur vörð um starfsemina enn þann dag í dag.

Það er óhætt að segja að listamiðstöðin Skaftfell væri hvorki fugl né fiskur nema fyrir hjálp og jákvæðni samfélagsins, stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga í bænum. Þar má nefna sérstaklega bæjarstjórnir sem hafa setið við stjórnvölinn frá því að Skaftfell var stofnað, Stjörnustál hf, Brimberg, Síldarvinnsluna, Tækniminjasafn Austurlands, bræðurna frá Sunnuholti Sigurberg og Þorgeir Sigurðarsyni og ótal marga til viðbótar. Guðmundur Oddur Magnússon sem er einn þeirra sem dvelja í firðinum á sumrin hefur lagt stofnuninni til stuðning, en hann hefur meðal annars hannað veggspjöld, sýningarskrár og fleira, eins og hann gerir einnig fyrir þessa sýningu.

Viðburðadagskrá

Þriðjudagurinn 17. Júní kl. 16:00
Opnun á RÓ RÓ, ganga að útiverkum víðsvegar um bæinn og gjörningurinn Nöfnin eftir Gunnhildi Hauksdóttur fluttur.
Hljóð- og myndbandsverkið NS-12 eftir Kristján Loðmfjörð og Konrad Korabiewski sýnt í Brimberg kl. 21:00, gengið inn frá bryggju.

Sunnudaginn 6. júlí kl. 15:00
Tvísöngshátíð, órafmagnað

Sunnudaginn 3. ágúst kl.15:00
Gjörningar: Auxpan, Borghildur Tumadóttir, Daníel Karl Björnsson og Gunnhildur Hauksdóttir

Sunnudaginn 3. ágúst kl.16:00
Fjallkonuhátíð, opin þátttaka

Laugardaginn 23. ágúst kl. 15:00
Létt á bárunni flytur Sexí

Leiðsögn alla miðvikudaga kl. 16:00, 500 kr.

RÓ RÓ stendur til 5. október. Skaftfell er opið daglega frá kl. 12 – 22 og aðgangur er ókeypis.

Staðsetning útilistaverka

Æviágrip myndlistarmanna

Berglind Ágústsdóttir, 1975. Berglind útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hún hefur sýnt víða hér á Íslandi og erlendis og staðið að listviðburðum, verið sýningarstjóri og starfað sem tónlistar og myndlistarkona. Berglind hefur spilað víða um heim og gefið út plötur og kassettur. Hún vekur hvarvetna athygli enda fer ekkert á milli mála að list hennar er samofin framkomu hennar og atferli dags daglega. Líkt og í hversdagslífinu beitir húní myndlist sinni litum, mynstri, leikföngum og ljósmyndum til að koma á framfæri því sem henni liggur á hjarta. Verkin eru ýmist gjörningar, myndbönd, tónlist eða innsetningar. Berglind kom fyrst til Seyðisfjarðar árið 2003 til að taka þátt í Dieter Roth Academy en síðan hefur hún komið árlega í stuttar eða langar heimsóknir. Berglind hefur tekið þátt í listviðburðum á Seyðisfirði og má þar nefna samsýninguna we love iceland, spilaði á LungA hátíðinni og tók þátt í stofnun Fjallkonunnar, félags um eflingu listalífs á Seyðisfirði. Árið 2014 flutti Berglind til Seyðisfjarðar og rekur á heimili sínu diy residency, opið studiórými og residency. Þar vinnur hún myndlist og tónlist ásamt því að gera tilrauna útvarp ofl. Berglind lítur á Seyðisfjörð sem sitt annað heimili en hún býr líka í Berlín.

Birgir Andrésson, 1955-2007, fæddist í Vestmannaeyjum en fluttist upp á land á barnsaldri. Hann hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1973 og stundaði framhaldsnám í Hollandi á árunum 1978 til 1980. Eftir það flutist hann til Íslands og vann sem myndlistarmaður og hönnuðir. Birgir fór sem fulltrúi Íslands á Feneyjar tvíæringin 1995. Hann festi kaup á húsinu Hóll á Seyðisfirði og dvaldi þar mörgum stundum.

Björn Roth, 1961, fæddist í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og starfaði náið með föður sínum, Dieter Roth, á árunum 1978 til 1998 er Dieter lést. Björn tilheyrir þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem spretta úr viðskilnaði við hefðbundnar aðferðir og efnisnotkun í myndlist. Nýlistadeildin í Myndlista- og handíðaskólanum var einskonar stökkpallur út í konseptið, nýjamálverkið og nýbylgjuna og pönkið. Björn hefur starfað jöfnum höndum við myndlist, kennslu og sýningastjórn. Hann festi kaup á Bryggjuhúsinu á tíunda áratuginum og unnið mikið í þágu Skaftfells allt frá upphafi.

Borghildur Tumadóttir, 1989, hefur komið til Seyðisfjarðar á hverju ári síðan hún var 15 ára. Með tímanum hefur hún lært að meta fegurðina sem að bæinn umlykur sem andlegan stöðugleika og innblástur.

Daníel Karl Björnsson, 1974, fæddist í Reykjavík þar sem hann býr enn og starfar. Einnig hefur hann reglulegan dvalarstað á Seyðisfirði. Daniel útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur verið virkur myndlistarmaður, sýningastjóri, kennari og skipuleggjandi, bæði innanlands sem og utan. Hann er einn af stofnendum Kling & Bang gallerís í Reykjavík og hefur tekið þátt í rekstri þess frá stofnun árið 2003. Samband hans og Seyðisfjarðar er fimmtán ára gamalt en í því hefur reynt bæði á lífið sem og listina.

Dieter Roth, 1930-1998, fæddist í Hannover Þýskalandi. Hann var brautryðjandi í grafíklist og er heimsþekktur fyrir framlag sitt til bókverkamiðilsins. Hann fluttist til Íslands 1957 og eignaðist þar fjölskyldu. Dieter keypti ásamt syni sínum og samstarmanni Birni Roth Bryggjuhúsið á Seyðisfirði á níunda áratugnum og dvaldi oft á Seyðisfirði.

Elvar Már Kjartansson, 1982, hefur starfað við raftónlist frá því fyrir síðustu aldamót. Hann hefur komið víða við og verið til fyrirmyndar. Elvar hefur oft komið og dvalið á Seyðisfirði.

Garðar Eymundsson, 1929, fæddist í Baldurshaga á Seyðisfirði. Hann er elsti þáttakandi RÓ RÓ en Garðar og kona hans, Karólína Þorsteinshúsi, gáfu húsið Skaftfell til eflingar lista- og menningarlífi á Seyðisfirði. Garðar vann sem húsasmíðameistari en við 78 ára aldurinn lagði hann hamarinn til hliðar og pensillinn varð hans aðal verkfæri.

Garðar Bachmann Þórðarson, 1986, er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði. Hann er búsettur í Kaupmannahöfn en hefur enn tengingu við staðinn en afi hans er Garðar Eymundsson. Hann hefur verið að fá fást við kvikmyndagerð síðustu árin ásamt því að vinna sem kokkur.

Gunnhildur Hauksdóttir, 1974, er fædd í Reykjavík en býr og starfar við myndlist á Seyðisfirði og í Berlín í Þýskalandi. Hún hlaut meistaragráðu í myndlist frá Sandberg Institute í Amsterdam, Hollandi 2005 eftir að hafa klárað BFA frá Listaháskóla Íslands 2001. Hún er meðlimur í Dieter Roth Academíunni frá árinu 1999 þegar hún hóf að heimsækja Seyðisfjörð. Hún vinnur í þrívíða miðla, hljóð og myndband og gerir gjörninga. Meðal nýlegra einkasýninga eru gjörningurinn Bilið í 21hause í Vín, Austurríki á 2014 sem hluti af Siehe was dich sieht [Sjáðu það sem sér þig] eftir Franz Gra Samsæti Heilagra, í Listasafni Íslands 2013, Stjörnur í Context Gallery í Derry á Írlandi 2011, Gjöf mín yðar hátign, í listasafni ASÍ í Reykjavík 2011. Hún gegnir stjórnarstörfum hjá Nýlistasafninu og var formaður stjórnar frá árinu 2011-2014. Hún sinnir einnig kennslu í myndlistardeild Listaháskóla Íslands sem stundakennari.

Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, 1977, útskrifaðist með BA gráðu úr fjöltæknideild við Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur síðan þá tekið þátt í mörgum samsýningum og verið með þó nokkrar einkasýningar. Árið 2008 festu hún og eiginmaður hennar, Elvar Már Kjartansson, kaup á Járnhúsinu á Seyðisfirði og hafa þau allar götur síðan ýmist búið á Seyðisfirði eða í Reykjavík.

Helgi Örn Pétursson, 1975, er fæddur í Reykjavík. Hann hefur verið búsettur á Seyðisfirði síðan 2006 en hann lauk BA prófi frá Listaháskóla Íslands það sama ár. Helgi Örn vinnur í fjölmarga miðla en þar má helst nefna gjörninga, hljóð og teikningu. Í verkum sínum vinnur Helgi Örn gjarnan með öðrum listamönnum og dansa verkin þá oft á mörkum myndlistar, tónlistar, dans og leikhúss. Helgi Örn hefur að auki sinnt sýningastjórn, leikmyndahönnun, kennslu, hönnun og öðrum verkefnum er tengjast myndlist.

Ingirafn Steinarsson, 1973, er fæddur í Svíþjóð og flutti til Ísland árið 1980. Hann bjó sem barn og unglingur í Breiðholtinu og Ártúnsholtinu. Ingirafn stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík árin 1997 til 1999 og í Listaháskólanum í Malmö árin 2003 til 2006. Ingirafn bjó og starfaði í Reykjavík eftir námsdvölina í Svíþjóð en flutti til Seyðisfjarðar með maka sínum Benediktu Svavarsdóttir árið 2013. Þar keyptu þau gamalt hús, Báruna, og eru að gera það upp.

Jökull Snær Þórðarson er fæddur 21 desember 1988 á Seyðisfirði.

Julia Martin, 1976, fæddist og ólst upp í Berlín. Hún nam landslagsarkitektúr í Berlín en hélt svo til Edinborgar þar sem hún nam myndlist. Julia nýtir sé mannlega hegðun til innblásturs, þ.e. bæði hugmyndafræðilega sem og raunverulega. Hún hefur skrásett tilveru endurnýjanlegrar orku á strandlengju Skotlands sem og hverfandi hundasleðamenningu á Vestur-Grænlandi. Julia hefur tekið þátt í sýningum í Japan, Berlín, Hjaltlandseyjum, Edinborg og á Seyðisfirði. Nýjasta verkefni Juliu er rannsókn hennar á Kárahnjúkavirkjun og áhrif hennar á austurlandi. Í rannsókn sinni skoðar Julia vistfræðileg og félagsleg samband milli hluta, innra skipulags, landslags, hagkerfis og fólks. Þar með sýnir Julia hvernig vistfræði fjallar um mun meira en bara undur náttúrunnar. Það var einmitt þessa rannsóknarvinna sem var valdur þess að Julia kom til Seyðisfjarðar, en hún hefur þrisvar sinnum gestalistamaður í Skaftfelli á árunum 2011 – 2012. Julia hefur komið reglulega til Seyðisfjarðar síðustu árin.

Konrad Korabiewski, 1978, er margmiðlunar listamaður. Sem hljóðlistamaður, tónskáld og miðla listamaður nálgast Konrad listina á minimalískan hátt en um leið fókusar hann á óhefðbundin smáatriði sem sem brjóta mörkin milli mismunandi listgreina og miðla. Með því að fókusera frekar á inntöku, innihald og kjarna listarinnar en á ákveðinn miðil þreyfar hann fyrir sér og þróar nýja möguleika fyrir tilfinningum og tjáningu á heimspekilegum sjónarhornum og listrænni hugmyndafræði. Þetta endurspeglast í sviðsframkomu hans þar sem hann fær leikara og nýtir miðla til að bæta við lögum og nýjum víddum við tónlist hans, hljóð og útvarps listaverkum, innsetningum og vidjóverkum. Þetta kemur vel fram í verðlaunuðu gagnvirku bókverki hans og listakonunnar Litten, Affected As Only A Human Being Can Be (2010). Konrad er stofnandi og framkvæmdarstjóri Skála – Miðstöð hljóðlista og tilraunatónlistar og rekur gestavinnustofu og myndlistarstúdíóið HOF á Seyðisfirði. Hann er með meistara gráðu í Electronic Music Composition frá The Royal Academy of Music, Aarhus, Denmark.

Kristján Loðmfjörð, 1977. Undir aldamót stofnaði Kristján Lortinn í félagi við vini sína. Lorturinn stóð fyrir framleiðslu á tilraunakenndum stutt- og heimildamyndum ásamt því að halda myndlistartvíæringinn Trommusóló. Síðar nam Kristján myndlist í hollenskum smábæ þar sem hann útskrifaðist vorið 2006. Með hljóð- og myndbandsmiðlinum rannsakar hann möguleika frásagnarformsins án frásagnarinnar. Árið 2012 fylgdi Kristján maka sínum og þremur börnum og flutti til Seyðisfjarðar. Á Seyðisfirði er menningu stjórnað af konum og karlar sinna húsverkum.

Kristján Steingrímur, 1957, býr og starfar á Reykjavíkursvæðinu. Hann stundaði nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977 til 1981 og Listaháskólann í Hamborg 1983 til 1987. Kristján hefur jafnframt aðsetur á Seyðisfirði þar sem hann dvelur reglulega og vinnur að listsköpun og kennir námskeið með nemendum Listaháskóla Íslands ásamt Birni Roth. Frekari upplýsingar

Linus Lohmann, býr og starfar á Seyðisfirði.

Litten Nyström, 1997, fæddist á Árhúsum Danmörku. Framanaf bjó hún í Kaupmannahöfn en langaði að upplifa eitthvað stærra. Þar af leiðandi keypti hún hús og flutti til Seyðisfjarðar eftir stutta dvöl sem gestalistamaður Skaftfells árið 2011.

Lukas Kühne er skúlptúristi og býr í Montevide, Úrúgvæ. Verk hans eru oft þverfræðileg og hafa verið sýnd í Evrópu, Íslandi, Japan og norður-og suður Ameríku. Um þessar mundir nýtur Lukas sér rými og hljóð til vinnslu verka sinna.

Marcellvs L., 1980, er fæddur í Belo Horizonte, Brasilíu og býr bæði í Berlín og á Seyðisfirði. Marcellvs vinnur bæði með hljóð og mynd og hefur sýnt á alþjóðlegum vettvangi síðan á miðjum fyrsta áratug þessarar aldar. Einnig hefur hann sýnt á einkasýningum og má þar nefna Indiferença at Galeria Luisa Strina í São Paulo, COMMA 34 í Bloomberg Space í London, VideoRhizome í Kunsthalle Wien í vín og Infinitesimal í carlier | gebauer í Berlin. Hann hefur tekið þátt í fjöldan allan af samsýningum, t.a.m. 16nda tvíæringnum í Sydney (2008), 9nda tvíæringnum í Lyon (2007) og 27nda tvíæringnum í São Paulo (2006). Meðal verðlauna sem hann hefur unnið til eru Ars Viva Price 07/08.

Monika Fryčová, 1983, notast bæði við hljóð og mynd í myndlist sinni. Hún er einnig rithöfundur, listflytjandi og einkaþjóðfræðingur. Monika býr og starfar á Íslandi, í Tékklandi og í Portúgal. Hún er með meistara gráðu frá Fine Arts, Brno University of Technology, Atelier of Video, Czech Republic (2010). Monika stundaði nám við Listaháskóla Íslands (2006) og stundaði sjálfstætt nám í Kaliforníu og Mexíkó í Kaliforníu og Mexíkó (2004/5) með fjölda annara listamanna. Hún stundar um þessar mundir doktorsnám í Þjóðfræði. Monika glímir við lífsreynslur sem eru illþýðar á milli tungumála og reynir að koma fram með takti þeirra – hér og núinu – í leit að uppsprettunni sem við erum sífellt að finna, bara til að týna aftur.

Pétur Kristjánsson fæddist í Minnesota 1952. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1970, BA-prófi í þjóðfræði frá Háskólanum í Lundi 1986. Pétur var vinnumaður til sveita, stundaði sjómennsku, vann við þýðingar og var leiðbeinandi við Seyðisfjarðarskóla um árabil. Hann starfaði fyrir og með Dieter Roth á árunum 1991-1998, hefur frá 1984 starfað við Tækniminjasafn Austurlands og frá árinu 2002 verið forstöðumaður þess í fullu starfi. Pétur er prófessor í Dieter Roth-akademíunni og fyrrverandi stjórnarformaður Skaftfells. Hann er kvæntur Þóru Ingvaldsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau eina dóttur.

Ráðhildur Ingadóttir, 1959, hefur starfað sem myndlistarmaður um áralangt skeið. Hún nam myndlist í Bretlandi en býr og starfar í Danmörku og á Seyðisfirði. Verkefni Ráðhildar hafa verið af margvíslegum toga. Hún hefur m.a. starfað sem stundakennari í Listaháskóla Íslands og verið mjög virk í sýningarhaldi undanfarin ár, jafnt innanlands sem utan.

Roman Signer, 1938, er fæddur í Sviss. Hann er virtur samtíma myndlistarmaður og hefur dvalið oft á Íslandi.

Rúnar Loftur Sveinsson, 1949, er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Eftir að hafa stundað sjómennskuna í tugi ára var hann lánaður á Seyðisfjörð sem netagerðamaður í einn mánuð árið 1998. Sama ár fjárfesti hann í húsi á Seyðisfirði og hefur verið búsettur þar síðan. Rúnar Loftur hefur teiknað síðan hann var barn en árið 2006 hóf hann að læra að nota olíuliti hjá Garðari Eymundssyni. Rúnar Loftur málar hús, tíðaranda og mannlífið.

Tinna Guðmundsdóttir, 1979, býr og starfar á Seyðisfirði. Hún útskrifaðist úr Fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2002. Tinna heimsótti fyrst Seyðisfjörð febrúar 2002 þegar hún tók þátt í námskeiðinu Vinnustofan Seyðisfjörður í gegnum nám sitt sem endaði með sýningu í Skaftfelli. Fjörðurinn fagri var heimsóttir aftur árið 2007 og 2009 í stutta stund í tengslum við Skaftfell. Í byrjun árs 2012 flutti hún alfarið og er nú stoltur húseigandi.

Tumi Magnússon, 1958, er fæddur í Reykjavík. Hann hefur starfað sem myndlistarmaður í árabil og býr í Danmörku og Seyðisfirði.

Þórunn Eymundardóttir, 1979, er fædd og uppalin á Héraði en hefur verið búsett á Seyðisfirði frá árinu 2003, þá hafði hún lent þar fyrir tilviljun tveim árum fyrr og hefur ekki getað slitið sig frá staðnum síðan. Á námsárunum kom Þórunn við víða um land og lönd en árið 2006 lauk hún BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Þórunn hefur tekið þátt í fjölda sýninga, uppákoma og gjörninga, ýmist ein, í samstarfi við aðra listamenn eða í stærri samsýningum. Þórunn hefur að auki sinnt sýningastjórn, viðburðastjórnun, kennslu og öðrum verkefnum er tengjast myndlist.

Styrktaraðilar