Einn helsti velunnari Skaftfells, Karólína Þorsteinsdóttir, féll nýlega frá. Karólína starfaði í lengri tíma sem fréttaritari RÚV, Morgunblaðsins og DV. Á þeim vettvangi var hún ötull talsmaður Seyðisfjarðar og landsbyggðarinnar.
Karólína spilaði mikilvægt hlutverk í stofnun Skaftfells. Árið 1997 gaf hún, ásamt eiginmanni sínum Garðari Eymundssyni, þá nýstofnuðum Skaftfellshóp fasteignina að Austurvegi 42 með það að markmiði að efla menningarlíf á Seyðisfirði. Stjórn miðstöðvar tók svo til starfa árið 1998 og sýningarsalurinn var formlega vígður ári seinna. Á mótunartímanum voru fyrstu sýningarnar í Skaftfelli: Boekie Woekie árið 1996, Sýning fyrir allt – til heiðurs og minninga um Dieter Roth árið 1998 og Bernd Koberling, Björn Roth & Dieter Roth árið 1999.
Fjölskylda Garðars og Karólínu tilnefnir í stjórn Skaftfells á þriggja ára fresti einn stjórnarmann, ásamt varamanni. Undanfarin ár hafa setið í stjórn fyrir hönd þeirra hjóna: Gréta Garðarsdóttir, Helgi Örn Pétursson og Jökul Snær Þórðarson.
Garðar féll frá á síðasta ári, sjá nánar hér: https://skaftfell.is/velunnari-skaftfells-fellur-fra/