Home » 2010

HAND TRAFFIC IN THE BOX

Sýningin Hand Traffic In The Box mun opna í Skaftfelli – miðstöð myndlistar á Austurlandi laugardaginn 6. mars kl. 18:00.

Einu sinni á ári fá útvaldir listaskólanemar tækifæri til að baða sig í
gestrisni Seyðisfjarðar og drekka af köldum spena hans. Í ár voru það
átta ólíkir listamenn, innlendir og erlendir, sem börðust við að finna
lausnir á vandamálum sem eru ekki til.
Lausnirnar verða framreiddar fyrir svanga listunnendur, kaldar og
beiskar, í listamiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði, þann 6. mars.
Þegar öll kurl eru komin til grafar er Hand Traffic In The Box
sýning sem ekki verður lýst með orðum heldur brögðuð með dauðlegum
augum.

Sýningin er afrakstur árlegra vinnubúða Listaháskóla Íslands, Dieter Roth Akademíunnar, Tækniminjasafnsins og Skaftfells á Seyðisfirði. Nemendurnir hafa unnið með verkstæðum og handverksmönnum bæjarins auk þess að hafa kannað andrúm fjarðarins af fullum krafti.

Nemendurnir sem eiga verk á sýningunni eru: Claus Haxholm Jensen, Katrin Caspar, Loji Höskuldsson, Ragnhildur Jóhannsdóttir, Selma Hreggviðsdóttir, Sigríður Tulinius, Solveig Thoroddsen og Þórarinn Ingi Jónsson.

Leiðbeinendur og sýningarstjórar eru Björn Roth og Kristján Steingrímur Jónsson.

Sýningin stendur til 2. maí og er opin miðvikudaga til fimmtudaga frá 13:00 – 17:00 og föstudaga til sunnudaga frá 12:00 – 22:00.