Home » 2014

Veldi

Útskriftarnemar í myndlistardeild við Listaháskóla Íslands dvöldu á Seyðisfirði í tvær vikur við undirbúning sýningarinnar og hafa notið aðstoðar bæjarbúa sem tóku þeim opnum örmum og hafa veitt þeim innsýn í fjölbreytta verkmenningu bæjarins. Þeir hafa þannig kynnst fiskveiðum, stálsmíðum og ullarvinnslu auk þess sem þeir hafa fengið að reyna á eigin skinni einangrun og óvissu sökum vondra veðra og ófærðar. Þetta er stærsti hópur nemenda sem sækir námskeiðið frá upphafi, en auk þess fylgja sumum nemendum makar og fjölskyldur. Hópurinn er fjölbreyttur og inniheldur landkrabba og reyndar aflaklær, grasætur og blóðþyrstar skyttur, vinnuþjarka og letiblóð, borgarbörn og sveitavarga, sumir eru með börn á handleggnum en aðrir með timburmenn í eftirdragi.

Björn Roth og Kristján Steingrímur Jónsson eru leiðbeinendur námskeiðsins og sýningarstjórar.

Veldi er opin alla daga og stendur til 2. júní næstkomandi.

Námskeiðið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands, Dieter Roth akademíunnar, Tækniminjasafns Austurlands og Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.

Styrktaraðilar

Myndbönd