Home » 2009

Senur fengnar að láni

Elodie og Sjoerd eru Seyðfirðingum að góðu kunn en þau hafa búið á Seyðisfirði síðan um áramót ásamt börnum sínum Ástu Sólilju og Nonna.

Elodie Hiryczuk (fædd 1977 í Frakklandi) lærði myndlist í Amsterdam, en Sjoerd van Oevelen (fæddur 1974 í Hollandi) lærði arkitektúr í Amsterdam og London. Árið 2000 tóku Hiryczuk og van Oevelen upp samstarf við innsetningar sem fólu í sér hvorttveggja, viðfangsefni úr byggingarlist og hlutfallslega rétt líkön af landslagi. Upp úr því varð til ,,Landfall” (landsýn), ljósmynda-endurgerð af Surtsey í raunstærð, sem var komið fyrir í almenningsrými í Zuidas-hverfinu í Amsterdam.  Undanfarin ár hafa þau fengist við ljósmyndun. Á síðasta ári héldu þau sýninguna ,,Perspective of Disappearance” (dýptarskynjun), þar sem þau sýndu verk, unnin undir áhrifum af hinu manngerða, hollenska landslagi.

Þann 10. til 19. júní næstkomandi munu Hiryczuk og van Oevelen sýna sviðsettar ljósmyndir í verkefnarými Skaftfells. Sýninguna nefna þau ,,Senur fengnar að láni”, en þar fást þau við samband fólks við umhverfi sitt og sýna það í þokkafullri fjarvídd myndavélarinnar. Hiryczuk og van Oevelen búa og starfa á Seyðisfirði um þessar mundir.

Sjoerd og Elodie munu leiða sýningargesti að bókabúðinni kl. 16:30 og spjalla um verkin.

 

http://www.hiryczukvanoevelen.com/