Home » Saga og stofnun

Saga og stofnun

Skaftfell_husið_1998
Skaftfell árið 1998, ljósmynd Magnús Reynir.

Árið 1996 fékk áhugamannahópur um menningu og listir, oftast nefndur Skaftfellshópurinn, húsið að Austurvegi 42 á Seyðisfirði að gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í kjölfarið hófst mikið uppbyggingarstarf með það að leiðarljósi að efla menningarlíf á Seyðisfirði. Stjórn Skaftfells menningarmiðstöðvar tók til starfa árið 1998 og sýningarsalurinn var formlega vígður ári seinna.

Á mótunartímanum voru fyrstu sýningarnar: Boekie Woekie árið 1996, Sýning fyrir allt – til heiðurs og minninga um Dieter Roth árið 1998 og Bernd Koberling, Björn Roth & Dieter Roth árið 1999.

Boekie Woekie, Skaftfell, Seyðisfjörður, 1996 from Skaftfell on Vimeo.

Skaftfell hefur ávallt verið rekið sem sjálfseignarstofnun og þegið fjárstyrki í gegnum árin bæði frá ríki og bæ. Þar er nú rekin listamiðstöð með áherslu á sýningar á samtímalistum, rekstur gestavinnustofa fyrir listamenn og fræðslustarf á öllum skólastigum.

Í stjórn stofnunarinnar sitja aðilar fyrir hönd Skaftfellshópsins; Bandalags íslenskra listamanna; gefenda hússins og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Í Skaftfelli er starfandi fagráð sem skipuleggur listræna starfsemi frá ári til árs. Forstöðumaður sinnir öllum þeim störfum er lúta að rekstri stofnunarinnar, með dyggri aðstoð stjórnar og Skaftfellshópsins.

Skaftfell var reist af byggingameistaranum Guðfinni Jónssyni, árið 1907. Húsið er þriggja hæða, 420 fermetrar, byggt samkvæmt norskri fyrirmynd með nýklassísku yfirbragði og er mikil prýði í götumyndinni. Fyrstu árin var rekið gullsmíðaverkstæði á jarðhæðinni og veitinga- og gistihús á efri hæðum. Síðar tóku fleiri verslanir við, þar var um tíma norskt sjómannaheimili, ölstofa, veitingasala, hótel og síðast trésmíðaverkstæði Garðars Eymundssonar.

Skaftfell-husasaga-THG
Síða úr bókinni Húsasaga Seyðisfjarðar eftir Þóru Guðmundsdóttur.

Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár listamannsins Dieters Roth (1930-1998). Dieter gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga, allt frá því hann hóf að venja komur sínar á Seyðisfjörð upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter, og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði.

/www/wp content/uploads/2017/04/mbl 2000 ska
Viðtal við Grétu Garðarsdóttur og Garðar Eymundsson árið 2000.

Í blaðaviðtali sem tekið er við Garðar og Grétu, dóttur hans, og birtist um aldamótin kemur m.a. fram að vonast er til að halda uppi metnaðarfullu alþjóðlegu sýningarhaldi, rækta tengsl við evrópskt listalíf, bjóða upp á vinnuaðstöðu fyrir lista- og fræðimenn og skipuleggja vönduð námskeið fyrir börn og unglinga.