GÚLÍGOGG – Jón Sigurpálsson, Pétur Kristjánsson, Örlygur Kristfinnsson

17. júní – 28. ágúst 2022, Skaftfell Bistró

Opnunin fer fram 17. júní kl. 16:00. Allir velkomnir.

Opnunartími: eins og bistróið 

Sýningin nú verður þriðji og síðasti þátturinn í þrísýningnum YPSILON GOGG. Undirbúningur að þessari sýningaröð hófst á haustmánuðum 2019 með spekúlasjónum ásamt heimspekilegum vangaveltum og mátulegu ívafi af tilfinningasemi gangvart þeirri vinátta sem safnakarlarnir í bæjunum þremur, Ísafirði, Siglufirði og Seyðisfirði höfðu ræktað með sér gegnum árin. Fyrsta sýningin, GOGG, var á Ísafirði súmarið 2020. Önnur var GÚL á Siglufirði sumarið 2021 og nú 2022 verður lokasýningin, GÚLÍGOGG, á Seyðisfirði.

Sýningarstjórn og texti: Jón Sigurpálsson, Pétur Kristjánsson og Örlygur Kristfinnsson

 

Jón Sigurpálsson, Landslag við sjó (innsetning, 2022)

Sjónbaugur er ímyndaður hringur sem skilur að himinn og yfirborð jarðar. Beggja vegna við hinn ímyndaða hring er ríkulegt vistkerfi allra lífvera og fæðuöflun allt frá fruit de mer eða foie gras.

Jón Sigurpálsson (1954) býr og starfar á Ísafirði. Hann menntaði sig til myndlistar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Ríkisakademíunni í Amsterdam. Jón hefur sýnt verk sín á sýningum hér heima og erlendis á fjórða áratug með einka- og samsýningum. Hann kom að stofnun Gallerís Slunkaríkis og Menningarmiðstöðvarinnar Edinborgar og veitti Byggðasafni Vestfjarða forstöðu í rúma þrjá áratugi.

 

Pétur Kristjánsson, Þanneginn (2022)

Neytendur eru einstaklingar eða hópar einstaklinga sem kaupa dót – neysluvarning sem þeir neyta á einhvern hátt, nota, nýta, njóta o.s.frv.  Framleiðendur og seljendur eru hins vegar einhverskonar fyrirtæki, verksmiðjur, verslanir, þjónustur o.s.frv. sem skapa neysluvarninginn. Þeir þurfa að sannfæra neytendur um ágæti vörunnar svo neytendur kaupi. Þetta gerist allt á ímyndaðum vettvangi sem kallast markaðurinn og hann er einhvernvegin þanneginn.

Pétur Kristjánsson (f. 1952) nam búfræði við Hóla í Hjaltadal og Þjóðfræði í Lundi, Svíþjóð. Hann er sjálfmenntaður í myndlist en starfaði lengi með Dieter Roth og er meðlimur Dieter Roth Akademíunnar. Pétur hefur sýnt reglulega hér á landi og í Evrópu frá 1991. Hann var safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands frá 1986-2019. Pétur býr og starfar á Seyðisfirði.

 

Örlygur Kristfinnsson, Vatnslitamyndir sería

Vatnslitamyndir mínar eru um útrýmingu og aldauða Geirfuglsins. Um milljónir ára var tegund hans stærst í svartfuglafjölskyldunni og frá miðöldum sóttu menn egg og kjöt unnvörpum í geirfuglabyggðir við norðanvert Atlantshaf fyrir veisluborð Evrópubúa. Opinber náttúrugripasöfn og einkasafnarar luku verkinu í Eldey við Ísland 3. júní 1844 – þegar síðasti geirfuglinn á Jörðinni var drepinn. Inntak verkefnisins er að fjalla um örlög geirfuglsins og almenna náttúruvernd.

Fæddur á Siglufirði 21. mars 1949. Nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1969-73. Myndlistarkennsla, aðallega við Grunnskóla Siglufjarðar 1975-1996. Hefur haldið allmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Siglufirði og víðar á árunum 1977-2021. Safnstjóri og sýningahönnuður á Síldarminjasafni Íslands 1994-2016. Hefur unnið að endurgerð gamalla húsa og rekur sýningarsal í einu slíku: Söluturninum Siglufirði. Þá hefur hann skrifað þrjár bækur: Svipmyndir úr síldarbæ I og II og Sögu úr síldarfirði, sem skreytt er fjölda vatnslitamynda.