Pétur Kristjánsson – Fikt og fræði

Opnun 17. júní, kl 16:00-18:00 í sýningarsalnum Skaftfells

Sýningin stendur til 5. September. Opið þri-sun, kl. 13:00-17:00.

Leiðsögn og listamannaspjall 19. júní, kl. 15:00-16:00 (á íslensku), og 20. júní, kl. 15:00-16:00 (á ensku)

Pétur Kristjánsson er ekki bara listamaður. Hann hefur búið á Seyðisfirði frá því á 9. áratugnum og stýrði Tækniminjasafni Austurlands þangað til nýverið og átti auk þess drjúgan þátt í að koma á fót Skaftfelli og Dieter Roth Akademíunni. Hann hefur í gegnum tíðina verið lykilmaður í menningarlífi bæjarins og unnið hörðum höndum að list sinni og á sama tíma skapað tækifæri fyrir aðra listamenn. 

Pétur vinnur oft með það sem fellur til í samfélaginu og endurspeglar þannig gildismat okkar og fegurðarskyn. Hlutir sem fólk fleygir eða gefur upp á bátinn og hefur að þeirra mati tapað virði og jafnvel notagildi sitt. En í meðförum Péturs er þeim fundinn nýr útgangspunktur og hlutverk. Verk hans bjóða þannig upp á að við endurhugsum viðhorf okkar til hluta í kringum okkur og það er eiginlega óhjákvæmilegt að tengja verk Péturs við neysluhyggju nútímans og vegferð okkar í þeim efnum. En áhugi Péturs á hlutum á ekki síður rætur sínar að rekja í vangaveltum sínum um það hvaðan og hvernig þeir eru sprottnir og má segja að það sé útgangspunktur Péturs í þessari sýningu. Hér teflir listamaðurinn fram hugmyndinni um að fiktið geti leitt að áhugaverðri og jafnvel verðmætri niðurstöðu og stillir þeim vangaveltum í samhengi við ofurtrú nútímasamfélagsins á upplýsingu, gagnasöfnun og rökhugsun. Slík áhersla getur mögulega komið niður á færni okkar, skynjun og sjálfstrausti sem við hljótum með því að kynnast efninu og fá tilfinningu fyrir því með fikti og með því að prófa okkur áfram í óheftu sköpunarflæði. Myndasagan kemur einnig til sögunnar í framsetningu Péturs og er notuð sem eins konar filter á raunveruleikann og setur okkur þannig í stellingar að taka honum ekki of alvarlega. 

Sýningin Fikt og fræði átti upprunalega að haldast í hendur við starfslok Péturs við Tækniminjasafn Austurlands í lok ársins 2019 en hefur hins vegar átt brösótta fæðingu bæði vegna heimsfaraldurs og aurskriðu en mörg eldri verka Péturs voru geymd í einu húsanna sem fóru með skriðunni 18. desember. Um leið og við syrgjum horfin menningarverðmæti fögnum við því að uppspretta sköpunar á sér engin takmörk og nýjar hugmyndir koma í staðinn. 

Pétur Kristjánsson (f. 1952) nam búfræði við Hóla í Hjaltadal og Þjóðfræði í Lundi, Svíþjóð. Hann er sjálfmenntaður í myndlist en starfaði lengi með Dieter Roth og er meðlimur Dieter Roth Akademíunnar. Pétur hefur sýnt reglulega hér á landi og í Evrópu frá 1991. Pétur var safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands frá 1986-2019.

Sýningarstjórar: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og Julia Martin

Mynd: Pétur Kristjánsson