Safnarar / 06. apríl – 02. júni 2019

Sýningarsalur Skaftfells, 7. apríl – 2. júní, 2019

Sýning á undursamlega óvenjulegum og fjölbreyttum söfnum fengin að láni frá íbúum Seyðisfjarðar og nærliggjandi svæðum.

Opnun 6. apríl, kl. 16:00-18:00. Allir eru velkomnir.

Öll erum við í eðli okkar safnarar, ýmist af ásettu ráði en oft af tilviljun. Slík söfn endurspegla oft á tíðum persónuleika okkar og geta sem slík sagt okkur eitthvað um safnarann. Sýning þessi varð að veruleika þegar íbúum bæjarins og nærliggjandi svæða var boðið að sýna hluti sem þau safna.

Slík breidd safna endurspeglar fjölbreytileika íbúanna. Þau spanna allt frá úrvali ritvéla til kvikmyndaskráa, frá servíettum til vespuhreiðra. Markmiðið var að opna fyrir eins fjölbreytt úrval hluta og mögulegt væri og sú stefna tekin að sýna allt sem stofnuninni biðist, innan tilhlýðilegra marka.

Með verkefninu er gerð tilraun til að draga upp mynd af samfélaginu með því að sýna þessa hluti sem eru einhvern hátt hlaðnir merkingu eða hafa tilfinningalegt gildi fyrir okkur. Með hverju safni fylgja upplýsingar um safnarann ásamt texta frá eigandanum sem skýrir frá safninu og hvers vegna það skiptir hann máli.

Við vonumst til að verkefnið sé skýrt dæmi um hvernig samfélag Seyðisfjarðar getur verið skapandi þátttakandi í starfseminni en ekki einvörðungu sem áhorfandi. Enn fremur, vonumst við til þess að sýningin endurspegli með einhverju móti bæði eðli safna og söfnunar auk hlutverks nútímagallerís og samband þess við nærsamfélagið. Verkefnið er til þess fallið að varpa fram spurningum um hvað það þýðir að vera safnari, hvort að söfnun þurfi að vera meðvituð og hver skilgreining safna sé.