Home » Skipulagsskrá

Skipulagsskrá

1. gr.
Nafn og heimili

Heiti félagsins er Skaftfell. Heimilisfang félagsins er að Austurvegi 42, Seyðisfirði.

2. gr.
Tilgangur og markmið

Tilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að eflingu lista- og menningarlífs á Seyðisfirði. Þá er tilgangur félagsins m.a. að reka listsýningar- menningar- og kynningarmiðstöð í húsnæði stofnunarinnar að Austurvegi 42, Seyðisfirði. Jafnframt er stefnt að því að þar verði til útleigu íbúð fyrir listamenn og einnig að rekin verði  veitingarsala í tengslum við félagsstarfsemi.

3. gr.
Stofnfé

Stofnfé sjálfseignarstofnunarinnar er fasteignin Austurvegur 42, Seyðisfirði, sem er gjöf þeirra hjóna Garðars Eymundssonar og Karólínu Þorsteinsdóttur, Seyðisfirði, til félagsins til eflingar menningar- og listalífi á Seyðisfirði. Jafnframt tekur stofnunin við þeim fjármunum og verðmætum, sem svokölluðum skaftfellshópi hefur áskotnast.

4. gr.
Stjórn stofnunarinnar

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skal skipuð fimm mönnum og varamönnum þeirra. Skulu þeir tilnefndir til 3 ára í senn.

Stjórnin skal tilnefnd af eftirtöldum aðilum; Hjónin Garðar Eymundsson og Karólína Þorsteinsdóttir (eða börn þeirra hjóna) tilnefni einn, bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar tilnefnir einn, að fenginni umsögn menningarmálanefndar bæjarins, Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn og svokallaður Skaftfellshópur sbr. viðfest fylgiskjal tilnefnir 2 stjórnarmenn. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir fyrir hvern stjórnarmann.

Stjórnin velur sér sjálf formann og varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Hlutverk stjórnar er að vinna að markmiðum sjálfseignarstofnunarinnar og sjá um rekstur hennar sé í samræmi við markmið og tilgang.

Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdarstjóra og veita honum prókúruumboð.

Stjórnin skal láta gera skýrslu árlega í mars um verkefni og störf á síðasta almanaksári svo og um fyrirhuguð verkefni. Skýrslu þessa skal afhenda þeim sem eiga til að tilnefna stjórnarmenn, svo og öðrum þeim sem stjórnin telur eðlilegt að hafi aðgang að skýrslunni.

Stjórninni er heimilt að skuldbinda stofnunina fjárhagslega og taka lán fyrir hennar hönd. Eigi má þó selja eða veðsetja fasteignir nema til komi samþykki 4/5 hluta stjórnar og að uppfylltu lagaskilyrði því er um slíkt gildir (sbr. nú 5. gr. laga  nr.19/1988).

5. gr.
Reikningar og endurskoðun

Reikningsár sjálfseignarstofnunarinnar er almanaksárið. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda til að endurskoða ársreikninga og skal þeirri endurskoðun lokið í apríl ár hvert fyrir síðasta starfsár. Senda skal ársreikninginn áritaðan og samþykktan af stjórn og endurskoðanda til tilnefningaraðila stjórnarmanna svo og til Ríkisendurskoðunar sbr. 1. mgr. 3. gr.laga nr. 19/1988. Auk ársreiknings skal senda þessum aðilum skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á næstliðnu ári.

6.gr.

Tekjur sjálfseignarstofnunarinnar eru tekjur vegna reksturs lista- og menningarmiðstöðvarinnar, sem rekin verður í fasteign stofnunarinnar að Austurvegi 42, Seyðisfirði, svo og aðrar tekjur af starfsemi hennar, svo og framlög frá ríki eða stofnunum þess, sveitafélögum, félagasamtökum og einstaklingum.

7. gr.

Skipulagsskrá þessari verður því aðeins breytt að allir þeir sem tilnefna menn í stjórn séu sammála um breytinguna.

8. gr.

Sjálfseignarstofnun þessi verður ekki lögð niður nema með samþykki allra tilnefningaraðila. Verði svo skulu eigur hennar ráðstafað af tilnefningaraðilum sbr. 4. gr. og skal miðað við að verðmætum stofnunarinnar verði ráðstafað til eflingar lista- og menningarlífi á Seyðisfirði.

9. gr.

Leita skal staðfestingar Dómsmálaráðuneytis á skipulagsskrá þessari og hún síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1998. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 15. janúar 2004.