Alter/Breyta – Brák Jónsdóttir, Hugo Llanes, Joe Keys, Nína Óskarsdóttir

Alter/Breyta er samsýning myndlistarmannanna Brák Jónsdóttur, Hugo Llanes, Joe Keys og Nínu Óskarsdóttur. Sýningin opnaði laugardaginn 26. mars og stendur til 22. maí. Sýningarstjóri er Hanna Christel Sigurkarlsdóttir.

Um sýninguna:

Sýningin Alter / Breyta er samsýning fjögurra upprennandi myndlistarmanna sem eiga það sameiginlegt að hafa tiltölulega nýlega lokið námi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hópurinn var valinn í samvinnu með Bjarka Bragasyni, deildarforseta Myndlistardeildar LHÍ, og boðið að dvelja í þriggja vikna vinnustofudvöl í Skaftfelli þar sem þau fengu næði til að þróa tillögur sínar fyrir sýninguna. Þau vinna öll með ólíkar áherslur en þó er hægt að greina fíngerðan þráð sem býr til óræða tengingu á milli verka þeirra.

Einhvers konar umbreyting hefur átt sér stað eða er gerð að útgangspunkti eða viðfangsefni á sýningunni. Ólíkum efniviði og hugmyndum er hnikað til: Hæglátt og lágstemmt ferlið, natnin og endurtekningin sem umbreytir hversdagslegum hlutum þegar þeir eru teknir úr fyrra samhengi og taka á sig nýja mynd.

Verkið Fallen, eftir Joe Keys er samansafn smágerðra og litríkra hluta sem við gefum venjulega ekki mikinn gaum. Þeir hafa týnst og tapað sínu upprunalega hlutverki en í krafti fjöldans og með því að stilla hverjum og einum þeirra vandlega upp á sinni hillu, hljóta þeir fyrir vikið ákveðna upphefð. Áhorfandinn er tilneyddur að beygja sig til að skoða þá betur.

Innsetning og gjörningur/fyrirlestur Hugos Llanes hverfist um brauð og menningarlegan hverfulleika þess. Hér er okkur boðið að skilja pólitíska tilveru brauðs allt frá því að vera hefðbundin næring yfir í gildishlaðna, iðnvædda vöru þar sem hráefnið gefur vísbendingar um samfélagsstöðu okkar. Brauðgómarnir skapa eins konar líkamlega nærveru listamannsins og er afurð gjörnings um leið og listamaðurinn býður áhorfendum upp á sammanlega upplifun með því að búa til sinn eigin brauðgóm sem verður hluti af sýningunni. Með skúlptúrnum “…gives me sleepless nights…” er sett fram teiknimyndapersóna sem hægt er að skilja sem dæmisögu um hvernig ávani og þráhyggja mannsins um matvæli er kaffært með kapítalískum varningi.

Verk Brákar Jónsdóttur, Daphne, hangir tíguglega og friðsælt. Það er unnið út frá goðsögunni um umbreytingu Daphnes í lárviðartré til að flýja ofbeldisfullt áreiti Apollo. Trjágreinarnar mynda saman sterkbyggða grind en hafa verið sviptar sínu ytra klæði, berkinum, sem hlífir trénu. Berskjaldaður innsti kjarninn stendur eftir og þar getum við speglað okkur og getum jafnvel skyggnst inn í ókomna framtíð.

Hugmyndin um heilagleika og heimili er tvinnað saman í innsetningu Nínu Óskarsdóttur. Fallegir skrautmunir og hlutir sem tengjast handverki og heimili snerta á listrænni sköpun og persónulega rýminu en njóta á sama tíma upphefðar eins íkon á altari. Greinanleg fingraför listamannsinns í leirnum sanna aðkomu hennar að verkinu en helgidómur vígða vatnsins er okkur ósýnilegur. Hvernig er hægt að kalla fram heilagleika?

Texti: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir

Æviágrip:

Brák Jónsdóttir er fædd árið 1996. Hún útskrifaðist með BA gráðu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Verk hennar taka helst á sig form vídjóverks, bókverks, skúlptúrs og gjörnings, en nýverið hafa viðfangsefni hennar snúið að sambandi manneskju við náttúru. Í rannsóknum sínum nálgast hún kink og blæti og skoðar samband mannfólks og náttúrulegra kerfa á grundvelli yfirráða og undirgefni, fantasíu og femínisma. Verk hennar samanstanda af roðandi spennu milli sársauka og unaðar, náttúrulegra og manngerðra efna.

Hugo Llanes er fæddur 1990 í Xalapa, Veracruz í Mexíkó. Hann býr og starfar í Reykjavík og útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020. Hugo vinnur með pólitíska og félagslega bresti og fagurfræðina sem af því sprettur. Verk hans eru í formi málverka, ætilegra verka, innsetninga, rýmistengdra verka og staðbundinna gjörninga. Með verkum sínum skoðar hann félagslegar aðstæður, s.s. flutning fólks á milli landa, valdbeitingu og áhrifa síðnýlendustefnunar á þróun sjálfsmyndar Rómönsku Ameríku, stöðu sjálfstæðrar þjóðar, annarleika og pólitíska andspyrnu, auk þess sem hann vinnur með þema matar sem ádeilu á félagsleg vandamál og skoðar hvaða þýðingu upplifun okkar í gegnum matargerð hefur. Með ljóðrænni framsetningu verka sinni sér hann fram á mögulegan vettvang til að kryfja til mergjar þessi samofnu flóknu og krefjandi viðhorf. Hugo álítur að hið persónulega míkrókerfi sé berskjaldað gagnvart hinu hnattræna og með framsetningu sinni reynir hann að hvetja áhorfandann til þátttöku og íhugunar. www.cargocollective.com/hugollanes

Joe Keys er fæddur árið 1995 í Newcastle, Englandi. Hann hefur búið og starfað á Íslandi síðan 2018 og útskrifaðist úr myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Joe vinnur aðallega með fundið efni í formi skúlptúra og prentverka. Verkin hans endurspegla kerfi úr daglegu lífi með þurri kímnigáfu og hugleiðingar um hluti sem við vanmetum og látum alla jafna framhjá okkur fara. Joe starfar sem umsjónarmaður prentverkstæðis í Listaháskóla Íslands og er félagi í samrekna prentverkstæðinu Prent & vinir í Laugardal, Reykjavík. https://www.joekeys.com/

Nína Óskarsdóttir er fædd árið 1986. Hún útskrifaðist með MA gráðu í myndlist árið 2020 frá Listaháskóla Íslands þar sem hún kláraði einnig BA nám sitt í myndlist 2014. Nína vinnur með skúlptúr og innsetningar og verk hennar einkennast af efniskennd sinni. Hún notar efni á borð við leir, textíl og ljós sem kallast á við hverfulan efnivið á borð við vatn, eld eða matvæli. Nína vinnur með óefnisbundnar hugmyndir, svo sem heilagleika, minningar og sjálfsmynd, og gerir tilraunir til að koma þeim í efnislega mynd. Nína hefur tekið þátt í fjölda sýningarverkefna bæði hérlendis og í Evrópu sem og unnið að listrannsóknum sínum í gegn um vinnustofudvalir og rannsóknarstyrki. https://ninaoskarsdottir.com/