Fjær / Afield – Diane Borsato, Geoffrey Hendricks, Þorgerður Ólafsdóttir

04. júní – 04. september 2022 í sýningarsalnum

Opnunin fér fram 04. júní kl. 16-18:00. Léttar veitingar verða í boði.

Leiðsögn með Þorgerði Ólafsdóttur listamanni og Becky Forsythe sýningarstjóra verður sunnudaginn 5. júní, kl. 11:00.

Opnunartímar: þri – lau kl. 12-18:00, sun kl. 12-17:00, mán lókað.

Á sýningunni Fjær er safnað saman samtímalist og munum úr náttúru- og minjasöfnum sem tengjast innbyrðis og hafa skírskotanir í himininn, jarðfræði, könnun á landi og sýnatökur. Rýnt er í samband manns og umhverfis og staða okkar á tímum mannaldar rakin í gegnum vettvangsvinnu, athafnir og rannsóknir. Með því að stilla saman gimsteinum, grjóti og steinefnum til efnisleifa eins og plasts, er gerð tilraun til að draga fram í dagsljósið flókið þróunarferli milli manns, náttúru og lands í síbreytilegu samhengi.

Titillinn, Fjær, gæti vísað til einhvers sem er í fjarska, að heiman eða framandi, handan reynsluheims okkar. Eins og stjörnumerki í himinhvolfinu, tengjast handmálaður og samansafnaður himinn við steinasöfn, leiknar sögur og jarðfundnar plastminjar og eru því ekki lengur hluti af hnignun heldur breytast í hvata fyrir minningu sem bæði hreyfist og stirðnar innan jarðsögulegs tíma.

Sum verkanna, innblásin af mannlegri löngun til að safna og um leið breyta hinum náttúrulega heimi, varpa fram spurningunni: hvernig getur sú athöfn að halda út í umhverfið, sem við höfum nýlega enduruppgötvað, nært og skapað rými fyrir nýjar sameiginlegar frásagnir?

Listamenn: Diane Borsato, Geoffrey Hendricks & Þorgerður Ólafsdóttir. Á sýningunni eru einnig steinar sem Nicoline Weywadt safnaði og jarðfundnir plastmunir frá fornleifauppgreftinum við bæinn Fjörð á Seyðisfirði, sumrin 2020 og 2021.

Sýningarstjóri: Becky Forsythe

Diane Borsato (f. 1973) er kanadískur myndlistarmaður sem notar uppeldisfræðilegar og tilraunakenndar nálganir í verkum sínum með gjörningum, inngripum, vídeói, innsetningum og ljósmyndum. Þverfaglegar og félagslegar tengingar í verkum hennar verða oft til með því að stefna saman ólíkum hópum þ.m.t. fagfólki innan menningargeirans, listamönnum, dönsurum og náttúrufræðingum. Hún hlaut Martyn-Lynch Staunton verðlaunin frá kanadíska listaráðinu og hefur tvisvar verið tilnefnd til Sobey lista verðlaunanna. Diane hefur sýnt víða þar með talið í Art Gallery of Ontario, The Power Plant, the Walter Philips Gallery í Listamiðstöðinni Banff, Toronto tvíæringnum og í alþjóðlegum galleríum og söfnum. Hún dvaldi nýverið í vinnustofudvöl listamanna í AGO og hefur leitt vinnustofudvöl í Listamiðstöðinni Banff þ.m.t. Art of Stillness og the OUTDOOR SCHOOL. Hún kennir framhaldsnámskeið í Experimental Studio, sem dósent við Háskólann í Guelph, þar sem sambandið milli listar og hversdagslífs er skoðað – þ.m.t. Food and Art, Special Topics on Walking, Live Art, og OUTDOOR SCHOOL. Nánar um verk hennar má finna á: www.dianeborsato.net

Geoffrey Hendricks (1931-2018) var bandarískur myndlistarmaður sem kenndi sig við Fluxus frá sjöunda áratugnum, tók þátt í Fluxus hátíðum og sýndi verk sín víðsvegar. Árið 1965 hóf Geoffrey að nota skýjamyndir í verkum sínum, hann teiknaði ský á striga, stígvél, tau, stiga, bíla, byssur og stigaganga, ásamt öðrum hversdagslegum hlutum í innsetningum og gjörningum. Hann var prófessor emeritus í myndlist í Rutgers Háskólanum, þar sem hann kenndi á tímabilinu 1956-2003 og var þekktur meðal nemenda sinna vegna færni sinnar við matreiðslu heilsumáltíða. Hann rak vinnustofur og vinnustofudvöl listamanna í New York borg og býli í Colindale, Cape Breton Island í Nova Scotia ásamt lífsförunauti sínum og vinnufélaga, Sur Rodney. Hægt er að finna verk eftir Geoffrey Hendricks víða.

Þorgerður Ólafsdóttir (f. 1985). Í verkum sínum skoðar hún ólíka hluti og fyrirbæri sem eru samofin skilningi okkar og sambandi við náttúruna og öllum þeim mismunandi merkingum og gildum sem þar búa á tímum mikillar vitundarvakningar. Í nýlegum verkum hefur hún verið að skoða ólíkar birtingamyndir mannaldar og skörun jarðsögulegs tíma við manntíma. Þorgerður er hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Relics of Nature, an Archaeology of Natural Heritage in the High North, sem snýr að menningar – og náttúruminjum á norðurslóðum á tímum loftslagsbreytinga. Á næstu fjórum árum mun hópurinn vinna að margvíslegum verkefnum á Íslandi og Noregi; sýningum, opnum fyrirlestrum, málstofum, vinnustofum og útgáfum. Þorgerður hefur farið fyrir listamannareknum rýmum og unnið að sjálfstæðum verkefnum eins og tvíæringnum Staðir / Places, hún var formaður Nýlistasafnsins frá 2014 – 2018 hefur gefið út bækur um myndlist og listamannarekin frumkvæði. Verk hennar má finna á: https://thorgerdurolafsdottir.info/

Við þökkum: Ármann Guðmundsson, Kristján Jónasson, Myndlistarsjóður, Múlaþing, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýlistasafnið, Ragnheiður Traustadóttir, Rannveig Þórhallsdóttir, Safnasjóður, Síldarvinnslan, Tækniminjasafn Austurlands, Unnur Sveinsdóttir, Uppbyggingarsjóður Austurlands, Þjóðminjasafnið, Þorsteinn Þorsteinsson, Vigfús Birgisson

Mynd: Snædís Sunna Thorlacius. Hnappur (með fjögurra blaða smári), 1900-1930, fann Þóra Margrét Hallgrímsdóttir, Fjörður, Seyðisfjörður. Með leyfi Ragnheiðar Traustadóttur og Antikva.