Home » 2018

Alls konar landslag

Allt frá upphafi myndlistar hefur landslag og náttúra veitt myndlistarmönnum innblástur. Nína Tryggvadóttir (1913-1968) og Gunnlaugur Scheving (1904-1972) eru þar engin undantekning. Þrátt fyrir að lykilverk þeirra á sýningunni „Alls konar landslag”, Síldarbátur eftir Gunnlaug og Eyðimörk eftir Nínu, séu ekki dæmi um hefðbundin landslagsmálverk eru þau einhvers konar niðurstaða beggja listamanna eftir áralanga þróun og tilraunir þeirra. Hvorki Gunnlaugur né Nína bundu sig við einn miðil; öll verkin hér eiga þó sameiginlegt að vera í tvívídd en aðferðirnar þó mismunandi, allt frá hefðbundnu málverki, til samklippis og þrykks og skissa.

Þegar Nína hóf nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn öðlaðist hún loks frelsi fyrir sjálfstæða hugsun og hóf smám saman að þróa sinn eigin stíl sem seinna varð einkennandi fyrir hana. Á seinni hluta fjórða áratugs síðustu aldar liggja eftir Nínu mikið af andlitsmyndum en stíll hennar þótti á þeim tíma heldur hlutbundinn með áhrifum frá kúbisma. Á sama tíma og Nína hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1942 málaði hún helst óhlutbundið borgarlandslag. Með árunum færði hún sig yfir í náttúrulandslag en hélt áfram að túlka það óhlutbundið. Á næstu árum hélt Nína áfram að þróa stíl sinn og um miðja tuttugustu öldina hætti hún að fylgja eiginlegum fyrirmyndum í sköpun sinni, fór yfir í óhlutbundna ljóðrænu og klippimyndir hennar litu dagsins ljós. Í dag er Nína hvað þekktust fyrir þessar myndir.

Með blýant að vopni og pappír sem vígvöll hóf Gunnlaugur ungur að árum að teikna. Hann teiknaði svo til allt sem fyrir augu hans bar á Seyðisfirði en þó helst fólk við sín daglegu störf. Því er hægt að segja að hans helsta myndefni í gegnum tíðina sé að megninu til alþýðan en einnig liggja eftir hann hefðbundin landslagsmálverk sem eru þó frekar dæmi um tilraunir hans við að finna sig sem listamann. Fyrstu myndir hans eru blýantsteikningar en með tíð og tíma þróaðist stíll hans í sterkar og beinar skálínur sem skera myndflötinn og skipta honum upp. Þar með hverfa bæði sjóndeildarhringurinn og bakgrunnurinn smátt og smátt og sjónarhornið verður sífellt þrengra. Gunnlaugur færðist meira í áttina að expressjónisma og kúbisma og má sjá þess áhrif glögglega í verkinu Síldarbátur.

Nína og Gunnlaugur eru af þeirri kynslóð íslenskra myndlistarmanna sem komu fram þegar hið hefðbundna landslag var allsráðandi í myndlistarsenunni og þótti mörgum listamönnum og gagnrýnendum allar tilraunir til að bregða út af hinu hefðbundna vera allt að því fáránlegar og jafnvel úrkynjun á myndlist. En með breyttum tíðaranda þegar leið á öldina tókst listamönnum að synda gegn straumnum, heimurinn hætti að vera jafn einsleiturr og túlkun listamanna á landslagi varð fjölbreyttari. Þetta má m.a. koma auga á í verkum Nínu og Gunnlaugs á sýningunni Alls konar landslag þó að birtingarmyndin sé með mjög ólíkum hætti.

Sýningarstjóri Oddný Björk Daníelsdóttir

 

Um listamennina

Nína Tryggvadóttir nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Aðallega vann hún málverk með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir barnabækur sínar, pappírsverk og verk úr steindu gleri og mósaík, s.s. í Þjóðminjasafni Íslands, Skálholtskirkju, aðalbyggingu Landsbankans, afgreiðslusal Loftleiða á John F. Kennedy-flugvelli í New York og á Hótel Loftleiðum. Hún var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar, þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún sýndi verk sín á fjölda sýninga um heim allan, þeirra á meðal í ICA; Institute of Contemporary Arts, London, Palais des Beaux-Arts í Brussel og New Art Circle Gallery í New York. Hún er einn fjögurra íslenskra listamanna sem eiga verk í eigu MoMA; Museum of Modern Art í New York, auk þess sem verk hennar eru í eigu fjölda annarra listasafna og einstaklinga um heim allan.

Gunnlaugur Óskar Scheving var íslenskur myndlistarmaður og einn þekktasti listmálari Íslendinga á 20. öld. Gunnlaugur stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur fæddist á Seyðisfirði og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Gunnlaugur lærði teikningu hjá Einari Jónssyni og er meðal fyrstu nemenda Muggs í skólanum við Hellusund. Árið 1923 fór hann til Kaupmannahafnar og nam við listaakademíuna þar en á meðan hann bjó sig undir inngöngu bjó hann í húsnæði Nínu Sæmundsson sem þá var á Ítalíu. Hann var í námi til 1930. Gunnlaugur giftist Grete Linck, samnemanda úr listnámi í Kaupmannahöfn og héldu þau sýningar saman. Gunnlaugur dvaldi hjá Sigvalda Kaldalóns í Grindavík um 1940 og málaði þá margar sjávarmynda sinna. Hann gerði myndir um Landnámið fyrir lýðveldishátíðina úr lituðum pappír. Þær myndir sýna m.a. Hrafna-Flóka, Ingólf og Hjörleif og öndvegissúlurnar. Auk þess að myndskreyta Njálu myndskreytti hann Gretlu og var fyrirmynd hans norsk skreyting Heimskringlu.

Um sýningarstjórann

Oddný Björk Daníelsdóttir fæddist 1986 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2006. Vorið 2011 útskrifaðist Oddný frá Háskóla Íslands með B.A. próf í listfræði með bókmenntafræði sem aukagrein. Þar af tók hún eitt ár í skiptinámi í Utrecht University í Hollandi. Oddný hóf meistaranám í listfræði í Háskóla Íslands en tók sér frí frá námi og á einungis meistararitgerð sína eftir en hún var byrjuð að rannsaka sýningastjórnun í myndlistarlífi Íslands. Oddný er einn af stofnendum Artíma Gallerí sem var gallerí listafræðinema við H.Í. rekið út frá sjónarhorni sýningastjóra. Oddný sat í stjórn félagsins 2012-2013 þar sem hún m.a. sá um skipulagningu og fjármögnun auk þess að sýningastýra á annan tug sýninga þar. Haustið 2013 fluttist Oddný til Seyðisfjarðar og hefur síðan unnið við ýmis tilfallandi verkefni á vegum Skaftfells, þ.á.m. við uppsetningu sýninga og við bókhald. Oddný hefur unnið við skrifstofustörf síðustu ár á Hótel Öldunni en er nú sölustjóri Skálanesseturs.

/www/wp content/uploads/2016/10/lfaBRAS-logo-final-300

Samstarfsaðilar: Listasafn Íslands, Landsbankinn, Listasafn Reykjavíkur og Arion banki.