Home » 2017

Munur

Sýningarstjóri Bjarki Bragason.

Verk þeirra Claudiu Hausfeld, Sindra Leifssonar, Evu Ísleifsdóttur og Elísabetar Brynhildardóttur sem birtast á sýningunni Munur / The thing is takast á við spurningar um heim hlutanna á einn eða annan hátt. Listamennirnir hafa átt í samtali í vinnustofum hvers annars undanfarið ár en í ágúst 2017 stýrði Bjarki sýningu með fjórmenningunum í sýningarrýminu ca. 1715, sem hann rekur í og í kringum síð-barrokk skáp á heimili sínu. Þar settu listamennirnir fram skissur og undirbúning fyrir sýninguna, opnuðu þannig vinnuferli sitt og samtal þegar í miðja var komið í verkefninu. Titill sýningarinnar, Munur / The thing is vísar í margar áttir. Munur sem hlutur, gripur, eitthvað sem krefst varðveislu og undirstrikar verðmætamat en sömuleiðis bil sem aðgreinir þegar tveir eða fleiri hlutir eru bornir saman.

Um þessar mundir er horft til þeirra hluta sem umkringja menningarheim okkar, bæði í neyslumenningu sem sprengir öll eldri viðmið í framleiðslu og dreifingu varnings, en einnig vegna þess að eftir iðnbyltingu hafa í fyrsta sinn komið á sjónarsviðið manngerðar afurðir sem taka örskamma stund í framleiðslu en tugþúsundir ára í eyðingu. Hlutir sem skara gjörólíka tímaskala; hinn manngerða tímaskala og hinn jarðfræðilega. Á sama tíma beinist aukin athygli að lífi þessara hluta sem mikilvægra vísbendinga um gildismat og aðstæður menningarinnar

Í verkum listamannanna birtast munir, munur. Ösp, hið umdeilda tré sem plagar marga með sínum hraða vexti og hefur á undanförnum árum skipað sér í sess með öðrum plöntum sem fá á sig neikvæða ímynd líkt og lúpínan. Bolur af ösp sem hoggin hefur verið í búta, um það bil að springa í sundur meðan vökvinn yfirgefur timbrið er haldið saman af geirneglingu úr mahóní, hinum eftirsótta og nánast forboðna eðalvið frumskóganna. Á þennan máta taka verk Sindra Leifssonar oft á tíðum fyrir efnisheiminn, tilfærslur og samsetningar efna sem stríða gegn tilgangi eða eðli hvers annars. Framkvæmdir og eðli breytinga er þar leiðarstef, en í sýningunni í hefur Sindri skoðað nærumhverfi Skaftfells og unnið beint með fundna hluti úr umhverfinu.

Verk Evu Ísleifsdóttur hafa oft húmoríska nálgun, þar sem vonin og vonleysið streitast á móti hvort öðru, en eftir standa mikilvægar spurningar um hvernig gildismat og verðmæti eru skilgreind og búin til. Á sýningunni setur hún fram syrpu nýrra verka, en eitt þeirra á upphafspunkt sinn í áratuga gamalli teikningu eftir ókunnt barn, teikningu sem fannst í bók á flóamarkaði. Teikningin er af torfbæ, klipptum út nánast eins og skapalón, og á bak við ferkantaða gluggana blakta rauð gluggatjöld úr næloni sem límt hefur verið aftan á pappírinn. Heimilið, og spurningar um hvernig við munum það sem við munum, og gleymum því sem við gleymum, birtast hér sem ljúfsár glettni, þegar maður horfir í gegn um verkið, bernska túlkun á háþróuðu en umdeildu byggingarformi sem hvarf á skömmum tíma úr umhverfinu, en er enn á stangli í huga samfélagsins sem óljós fortíð. Verkið fjallar um hvað gerist þegar við vörpum fram ímyndun okkar um fortíðina og þann skáldskap sem þá birtist.

Elísabet Brynhildardóttir hefur í nýjum verkum sem gefur að líta á sýningunni skoðað efnislega eiginleika hluta, þanmörk þeirra og það sem gerist þegar tilgangur bjagast eða er snúið á hvolf. Í teikningum hefur Elísabet endurgert mistök úr gerð tölvulíkans, sem hún fylgdist með á spjallrásum á netinu, þar sem áhugamaður um tölvuteikningu reyndi að endurgera í þrívídd mynd af slæðu að bærast í vindi, án árangurs. Tölvuteikningin hlóð stöðugt á sig pixlum, afbakaðist. Nákvæm teikning Elísabetar af þessum tölvugerðu mistökum sýnir taumleysi efnis og baráttuna við að þýða raunheiminn yfir á stafrænt form.

Claudia Hausfeld beitir og fjallar um ljósmyndun í verkum sínum, þar sem spurningar um raunveruleikann eru lagðar til grundvallar, og sögulegar frásagnir lagðar til jafns við ímyndun. Í nýjum verkum hefur Claudia fengist við að skrumskæla skrásetningu á fornminjum úr gömlum bókum, sem hún raðar upp á ljóðrænan máta svo að úr menningarlegum fjársjóðum vera til beyglaðar fígúrur. Ljósmynd af ljósmynd úr bók sem hefur verið stækkuð margfalt og prentuð á A4 blöð og límd saman, þar sem hús úr fjarlægum menningarheim birtist, minnir á að aðferðirnar sem við notum til að skilja fortíðina breytast, og í aðferðum okkar við lestur og framsetningu á fortíðinni birtast viðhorf.

Æviágrip

Claudia Hausfeld er fædd árið 1980 í Berlín. Hún stundaði nám í ljósmyndun við Listaháskólann í Zürich í Sviss. Hún útskrifaðist með BFA gráðu úr Listaháskóla Íslands árið 2012. Claudia hefur tekið þátt í að reka listamannarekin rými í Sviss, Danmörku og Íslandi og er nú stjórnarmeðlimur Nýslistasafnsins. Claudia notast við ljósmyndina sem miðil í listsköpun sinni og vekur upp spurningar með verkum sínum um framsetningu, minni, og minnisleysi sem og skilning okkar á því sjónræna.

Elísabet Brynhildardóttir er fædd árið 1983. Hún útskrifaðist frá University College for the Creative Arts 2007. Frá útskrift hefur hún tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og öðru myndlistartengdu starfi. Verk hennar hafa verið sýnd í Listasafni Akureyrar, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Nýlistarsafninu, í Hafnarhúsinu og vídeó arkívi Kling & Bang. Í verkum sínum leitast hún við að kanna lendur teikningarinnar ásamt því að velta fyrir sér hugmyndum okkar um öryggi, hverfulleika og tíma.

Eva Ísleifsdóttir er fædd árið 1982 í Reykjavík. Hún hefur búið og starfað í Reykjavík og Aþenu í Grikklandi frá árinu 2015. Hún lauk MFA-gráðu frá skúlptúrdeildinni í Edinburgh College of Art í Skotlandi árið 2010 og BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Á síðustu sýningu vann Eva með ímynd listamannsins og listaverksins og voru hversdagurinn og samfélagsrýni henni hugleikin. Handverkið var til staðar en gjarnan er það ásýnd eftirmyndarinnar eða fúsksins sem haldið er á lofti og líkist fremur leikhúsmunum en upphöfnum höggmyndum.

Sindri Leifsson er fæddur árið 1988 í Reykjavík. Hann lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð árið 2013 og BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Einföld tákn og meðhöndlun efniviðarins eru endurtekin stef í verkum Sindra en umhverfi og samfélag koma gjarnan við sögu. Síðasta sýning hans teygði sig út fyrir sýningarrýmið þar sem óljósir skúlptúrar hafa tekið sér tímabundna fótfestu í umhverfinu og er ætlað að draga fram hugmyndir um borgarskipulag og hegðun okkar í rýminu.

Bjarki Bragason er fæddur árið 1983. Hann nam myndlist við Listaháskóla Íslands, Universität der Künste Berlin og lauk MFA-námi frá California Institute of the Arts í Los Angeles árið 2010. Í verkum sínum fjallar Bjarki gjarnan um árekstra í tíma, og rekur breytingar í gegn um skoðun á samskeytum  tímabila, í jarðfræði, plöntum og arkitektúr. Bjarki hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum alþjóðlega ásamt því að stýra sýningarverkefnum. Bjarki er lektor og fagstjóri BA-náms við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Logo-bordi-Munur-2017