Home » Æviágrip

Æviágrip

Ásgeir Jón Emilsson,  Geiri,  fæddist 1931 að Hátúni við Seyðisfjörð, yngstur tólf systkina.  Geiri bjó alla sína ævi á Seyðisfirði. Hann stundaði sjómennsku framan af ævinni, fór á vertíð vítt og breitt um landið en lengst af og til starfsloka starfaði hann við fiskvinnslu á Seyðisfirði. Þrátt fyrir að vera einfari var hann ávallt vinamargur og hrifust menn af persónutöfum hans, einlægni og  umhyggju fyrir lítilmagnanum. Hann var alla tíð heyrnaskertur, en lét fötlun sína ekki aftra sér þrátt fyrir ógætileg viðbrögð þeirra sem rangtúlkuðu málfar hans og skringilegheit. Geiri var litríkur karakter og listamaður af Guðs náð. Hann fékk ekkert formlegt listuppeldi en hafði þó frá unga aldri áhuga á því að skapa með höndunum. Verk hans bera merki um natni og listfengi og eru afleiðing  óstöðvandi sköpunarþarfar. Geiri var sannkallaður alþýðulistamaður. Síðustu 20 ár ævi sinnar bjó hann í litlu húsi við Oddagötu á Seyðisfirði.  Þar vann hann að listsköpun sinni og má með sanni segja að líf hans og list hafi verið eitt. Hvert sem litið er á heimili hans má sjá handbragð listamannsins og þekkja þau mótíf sem hann fékkst við í tví- og þrívíðum verkum sínum. Þrívíð verk úr dósum, rammar úr sígarettupökkum, málverk með síendurteknum mótífum og mikill fjöldi ljósmynda sem bera merki um óvenjulegt sjónarhorn listamannsins, eru burðarásinn í ævistarfi Geira. Heimili hans var í raun heimur út af fyrir sig og hann kóngur í ríki sínu. Þar stóðu allir jafnfætis, kötturinn Lóli, gestirnir og hann sjálfur. Sýslumaðurinn, skattstjórinn, smekkstjórarnir og yfirvöld flest, nema auðvitað Vigdís forseti, tilheyrðu annarri vídd sem naut ekki viðurkenningar í Geirahúsi.

Alþýðulistamaðurinn Ásgeir Emilsson lést árið 1999, þá 68 ára að aldri. Eftir hann liggur mikill fjöldi verka sem hann ýmist gaf eða seldi svo varla er það heimili á Seyðisfirði og nágrenni að ekki megi finna þar verk eftir Geira. Stærsti minnisvarðinn um þennan einstaka listamann er þó heimili hans, en þar er nú rekið safn á vegum Skaftfells – miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.

Pétur Kristjánsson