Home » 2017

Þögul athöfn

Einkasýning.

Sýningarstjóri: Gavin Morrison.

Uppistaðan í Þögulli athöfn, sýningu Hönnu Kristínar Birgisdóttur, eru tveir skúlptúrar sem við fyrstu sýn bera með sér einkennileg efnistök. Heflaður bjálki sem borað hefur verið langsum í gegnum, hvílir þungur á léttri grind og mold hefur verið sáldrað í kring. Tvö sköft eru við vegginn í námunda við skúlptúrinn, þau bera líka ummerki þess að mold hafi komið við sögu. Hinum meginn í salnum liggur hringlaga moldarlengja, jafn löng bjálkanum og suðurhluta salarins hefur verið umbreytt í heimatilbúin tennisvöll samsettan úr fundnu efni. Netið er úr fiskineti sem haldið er uppi af tveim afsöguðum drumbum og timburbútum. En það skrítnasta og óvæntasta er sennilega moldin. Ein skýring á notkun hennar er gefin í skyn með ljósmyndaröð á veggnum sem sýnir tennisspaða tvístra moldarboltum við högg.

Að koma inn í sýningarsalinn er einsog að ganga inn í rými þar sem einhver aðgerð er nýafstaðin. Það sem eftir stendur er vitnisburður um tilteknar athafnir en gerendurnir hafa yfirgefið svæðið. Samansafn munanna á staðnum gera manni mögulega kleift að skilja hvað gekk á en tilgangur aðgerðanna liggur á huldu. Leifarnar virka ruglingslegar og skrítnar en eru ekki beinlínis absúrd. Við skiljum formin og tengsl athafnanna, við þekkjum tennisvöllinn og reglur leiksins. En í formunum er einsog sagan sem verið er að segja hafi verið lítið eitt afvegaleidd. Kannski tilheyra báðir skúlptúrarnir einni og sömu sögunni. Við getum giskað á það en fáum það líklega ekki staðfest. Það eina sem við höfum er þögull vitnisburður um athöfn.

Hanna Kristín Birgisdóttir, f. 1989, býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands með BA-gráðu árið 2014. Meðal sýningarverkefna sem hún hefur tekið þátt í má nefna: Like a breath being compressed into a high pitched sound, Kling&Bang, Reykjavík, hluti af Sequences Art Festival 2015, Svona, svona, svona, Safnahúsið í Reykjavík, 2014 og Rottan á Hjalteyri, Verksmiðjan á Hjalteyri, 2014.

SL_austurland

/www/wp content/uploads/2016/03/myndlistarsjodur