Home » 2023

The Arctic Creatures Revisited

Skaftfell tilkynnir opnun sumarsýningarinnar The Arctic Creatures Revisited, sem verður opin almenningi frá 6. maí til 20. ágúst 2023. Á sýningunni eru yfir 20 ljósmyndir eftir The Arctic Creatures, samstarfshóp þriggja listamanna – myndlistarmannsins Hrafnkels Sigurðssonar, kvikmyndagerðarmannsins og leikstjórans Óskars Jónassonar og leikarans/leikstjórans Stefáns Jónssonar.

Á löngum gönguferðum um óbyggðir Íslands leika listamennirnir hlutverk í senum sem þeir semja og setja á svið og eru innblásnar af fundnum hlutum sem einnig gegna hlutverki leikmuna. Afraksturinn eru ljósmyndir teknar á árunum 2012-22, í senn skoplegar og sorglegar, skringilegar og umhugsunarverðar, einlægar en um leið listilega kænlegar. Hrafnkell, Óskar og Stefán eru æskuvinir sem stigu fyrstu skrefin á listabrautinni í Reykjavík á blómaskeiði íslenska pönktímabilsins upp úr 1980. Langar gönguferðir þeirra félaga um íslenskar óbyggðir og meðfram ströndum Vest- og Austfjarða eru árlegt athvarf þeirra frá borgarlífinu þar sem þeir tengjast náttúru, umhverfi og hver öðrum upp á nýtt. Þeir fá innblástur í sameiginlegri menningarsögu umhverfisins – í harðneskjulegu landslagi, í dulúðugri stemningu kaldtempraðrar sumarbirtu, og í mannvistarleifum í eyðibýlum, bátshræjum og rekaviði – „gera sér mat úr hinu óvænta“ og nýta sér reynslu sína hver á sínu sviði til að skapa þessar uppstilltu svipmyndir.

Í heild sinni mynda ljósmyndirnar tengsl á milli goðsagna og sögu, bókmennta og lista, náttúru og menningar, og vekja áleitnar en óviljandi spurningar um hvernig maðurinn upplifi náttúruna og hafi áhrif á hana á móti.

Sýningin Arctic Creatures verður haldin í Nordatlantens Brygge, Strandgade 91 í Kaupmannahöfn, frá 10. júní til 10. September 2023. www.nordatlantens.dk/