Fræðsluverkefni 2013-2014

Fræðsluverkefni Skaftfells veturinn 2013-2014 fjallar um mynd- og tungumál Dieters Roth. Skaftfell bauð nemendum á miðstigi  (5.-7. bekk) í leiðsögn um sýninguna „Hnallþóra í sólinni“ sem hafði að geyma grafík- og bókverk eftir svissneska listamanninn Dieter Roth. Í kjölfarið tóku nemendur þátt í listsmiðju auk þess sem Tækniminjasafn Austurlands bauð þeim að skoða prentvélar í umsjón safnsins.

Sérstök áhersla var lögð á að koma til skila grunnaðferðum prenttækni svo og aðferðafræði og vinnuferli Dieters en hann var sérstaklega lunkinn í að gera tilraunir og vinna að sköpun án þess að gefa sér fyrirfram ákveðna útkomu. Í listsmiðjunni fengu nemendur að búa til eigið bókverk sem samanstóð af tveimur verkefnum; annars vegar tvíhendis-teikningum í anda Dieters og hins vegar stimplaverkefnum þar sem fengist var við afbökun myndmáls og tungumáls. Á Tækniminjasafninu skoðuðu nemendur prentvélar þar á meðal steinþrykkpressu, djúpþrykkpressu og háþrykkpressu áður í eigu Dieters heitins. Auk þess fengu þau sýnikennslu í prenttækni frá miðri síðustu öld með Intertype setningarvél og Grato press prentvél.

Verkefnið var unnið í samstarfi við fjölda fyrirtækja á Austurlandi og með stuðningi frá þeim var hægt að bjóða nemendum að fara í vettvangsferðina endurgjaldslaust. Þessir aðilar voru:

HB Grandi
Sláturfélag Vopnfirðinga
Eimskip

Síldarvinnslan
VHE vélaverkstæði

Eskja hf

Loðnuvinnslan hf

Vísir hf

Héraðsprent

Auk þess var verkefnið styrkt af Menningarráði Austurlands og Barnamenningarsjóði.