Lífleg fræðslustarfsemi í Skaftfelli

Hallormsstaðarskóli

Á síðustu mánuðum hefur Skaftfell boðið nemendum á miðstigi úr grunnskólum Austurlands að gera fræðsluverkefni tengt Dieter Roth og prenttækni. Nemendur komu í vettvangsferð til Seyðisfjarðar þar sem þeir fengu leiðsögn um sýningu með prentverkum eftir Dieter og fóru í listsmiðja. Einnig var farið í heimsókn Tækniminjasafnið og skoðaðar prentvélar frá síðustu öld. Alls komu ellefu skólar með um 250 nemendur: Brúarárskóli, Fellaskóli, Eskifjarðarskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Grunnskóli Breiðdalshrepps, Hallormsstaðarskóli, Egilsstaðaskóli, Nesskóli, Grunnskóli Djúpavogs og Seyðisfjarðarskóla.

Nemendur frá Djúpavogi

Sérstök áhersla var lögð á að koma til skila grunnaðferðum prenttækni og vinnuferli Dieters en hann var sérstaklega lunkinn í að gera tilraunir og vinna að sköpun án þess að gefa sér fyrirfram ákveðna útkomu. Í listsmiðjunni fengu nemendur að búa til eigið bókverk sem samanstóð af tveimur verkefnum; annars vegar tvíhendisteikningum í anda Dieters og hins vegar stimplaverkefnum þar sem fengist var við afbökun myndmáls og tungumáls. Á Tækniminjasafninu skoðuðu nemendur prentvélar þar á meðal steinþrykkpressu, djúpþrykkpressu og háþrykkpressu áður í eigu Dieters heitins. Auk þess fengu þau sýnikennslu í prenttækni frá miðri síðustu öld með Intertype setningarvél og Grato press prentvél.

Fræðsluverkefnið var unnið í samstarfi við fjölda fyrirtækja á Austurlandi og með stuðningi frá þeim var hægt að bjóða nemendum að fara í vettvangsferðina endurgjaldslaust. Þessir aðilar voru: HB Grandi, Sláturfélag Vopnafjarðar, Eimskip, Síldarvinnslan, Eskja, Loðnuvinnslan, Vísir hf, Héraðsprent og Landsnet.

Nemendur frá Nesskaupsstað

Skaftfell hlaut einnig styrk frá Menningarráði Austurlands til að ráða starfsmann, tímabundið í hlutastarf, til að leiða fræðslustarfsemina og sá styrkur hafði úrslitáhrif á þróun fræðsluverkefnsins. Auk þess var verkefnið styrkt af Barnamenningarsjóði.

Á undanförnum árum hefur verið lögð mikil áhersla á að þróa og efla fræslustarfsemi Skaftfells. Miðstöðin hefur verið leiðandi á Austurlandi hvað varðar myndlistarfræðslu og unnið í samstarfi við menntastofnanir á grunn-, framhalds- og háskólastigi. Veigamestu verkefni Skaftfells á þessu sviði eru: fræðsluverkefni fyrir grunnskólanema Austurlands, námskeið fyrir 3. árs nemendur úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands og umsjón með myndmenntarkennslu í Seyðisfjarðarskóla. Einnig stendur Skaftfell reglulega fyrir listamannaspjalli, opnum vinnustofum, sýningarleiðsögnum, rekur sérbókasafn og sinnir almennri upplýsingagjöf.