Home » 2006

Sigurður og Kristján Guðmundssynir

10 jún 2006 – 19 ágú 2006
Aðalsýningasalur

Þeir Bræður, Sigurður Guðmundsson og Kristján Guðmundson eru listunnendum að góðu kunnir en þeir voru báðir meðal forsprakka SÚM-hreyfingarinnar, þegar íslenskir listamenn byltu listalífinu í landinu. Þótt Myndlist þeirra eigi sterkar rætur í hugmynda- eða konseptlist sem mótaðist á 7. Áratuginum er óhætt að segja að þeir hafi farið sínar eigin leiðir og myndlist þeirra spretti gjarnan af misjöfnum meiði.

Það er erfitt að skilja list Sigurðar Guðmundssonar frá orkumiklum og hugmyndaríkum listamanninum sjálfum. Sigurður lætur hugmyndina ráða og verkin hans eru margvísleg allt frá ljósmyndum og skáldsagna til konfektmola í yfirstærð úr málmi og steini. Sigurður er einn alþjóðlegasti listamaður þjóðarinnar, hann býr og starfar í Hollandi, Íslandi, Svíþjóð og  Kína.

Undanfarin ár hefur Kristján Guðmundsson m.a. unnið verk úr galvaníseruðum járnrörum, sem eru stundum lituð, og segja má að verkin fjalli fremur um bilið á milli hlutanna en hlutina sjálfa eins og heiti verkanna gefa til kynna; t.d. „Gular traðir“ og „Rauð göng“.  í þessu samhengi eru göngin innra byrði röranna, en traðirnar ytra byrði þeirra.  Í teikningum sínum er Kristján sömuleiðis fremur að vinna með efnivið teikningarinnar en teikningu í hefðbundnum skilningi, því hann lætur efniviðinn, þ.e.a.s. blýið mynda teikninguna sjálfa.  Þannig hafa teikningar Kristjáns eins og málverkin, öðlast nýja vídd sem rýmisverk auk þess að vera teikningar í ramma.

 

KRISTJÁN GUÐMUNDSSON
Fæddur 1941 á Snæfellsnesi.
Búsettur í Reykjavík.

Kristján Guðmundsson (f. 1941) var meðal forsprakka SÚM-hreyfingarinnar, þegar íslenskir listamenn byltu listalífinu í landinu. Myndlist hans á sterkar rætur í þeirri hugmynda- eða konseptlist sem mótaðist á 7. áratuginum og um það bera t.d. “Teikningar” hans vott. Um er að ræða ýmis konar samsetningu grafíts og pappírs, en hvort tveggja er einmitt undirstaða hinnar hefðbundnu teikningar: grafít í blýanti og pappír í örk. Þá hefur hann unnið með fjölmörg önnur efni og meðal annars nálgast mínimalisma í glerverkum sínum.