Gestalistamaður Skaftfells og nemendur Seyðisfjarðarskóla taka þátt í List í ljósi 2020

Gestalistamaður Skaftfells, Kristen Mallia (US), bauð nemendum í 3. bekk Seyðisfjarðarskóla upp á stutta listsmiðju þar sem þau unnu með ljós og myrkur og hið óútreiknanlega með því að nota skanna á mjög óhefðbundinn og gáskafullan hátt. 

Afraskstur smiðjunnar verður til sýnis á hátíðinni List í ljósi 13.-15. febrúar, daglega kl. 18:00-22:00, í glugga verslunarinnar Blóðberg á Norðurgötu 5, sem snýr að Ránargötu. 

Kristen Mallia er listakona sem býr og starfar í Boston, Massachusetts. Verk hennar, innsetningar, prent og verk sem búa yfir tímabundna umgjörð, tengjast öll á einhvern hátt endurtekningu og ferli, og með þeim rannsakar hún hlutverk varðveislu, framkvæmdar og söfnunar í hinu hversdagslega lífi. Kristen notar bæði stafrænt og hliðrænt efni til að rannsaka hvernig við leggjum skilning í verðmæti í tengslum við tíma, minni, sögu og lýsingu/umgjörð innihalds. Kristen Mallia kennir við Boston University og Massachusetts College of Art + Design. Hún dvelur sem gestalistamaður í Skaftfelli í febrúar og mars 2020.