/var/www/vhosts/skaftfell.is/httpdocs/wordpress/wp content/uploads/2018/03/n t samsett 2018 1200

Alls konar landslag

8. sept - 6. okt, 2018. Nína Tryggvadóttir & Gunnlaugur Scheving.

Á afmælisári Skaftfells verður sett upp sýning á verkum eftir málarana Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) og Gunnlaug Scheving (1904-1972) í sýningarstjórn Oddnýjar Björk Daníelsdóttur. Mjög er langt síðan verk eftir þessa listamenn hafa verið sýnd á Austurlandi en sett var upp sýning í tilefni af 100 ára afmælis Seyðisfjarðarkaupstaðar 1996 þar sem voru nokkur verk eftir Nínu og Gunnlaug. Til sýnis verða valin verk úr eigu listasafna og einkaaðila.

Um listamennina

Nína Tryggvadóttir nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Aðallega vann hún málverk með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir barnabækur sínar, pappírsverk og verk úr steindu gleri og mósaík, s.s. í Þjóðminjasafni Íslands, Skálholtskirkju, aðalbyggingu Landsbankans, afgreiðslusal Loftleiða á John F. Kennedy-flugvelli í New York og á Hótel Loftleiðum. Hún var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar, þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún sýndi verk sín á fjölda sýninga um heim allan, þeirra á meðal í ICA; Institute of Contemporary Arts, London, Palais des Beaux-Arts í Brussel og New Art Circle Gallery í New York. Hún er einn fjögurra íslenskra listamanna sem eiga verk í eigu MoMA; Museum of Modern Art í New York, auk þess sem verk hennar eru í eigu fjölda annarra listasafna og einstaklinga um heim allan.

Gunnlaugur Óskar Scheving var íslenskur myndlistarmaður og einn þekktasti listmálari Íslendinga á 20. öld. Gunnlaugur stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur fæddist á Seyðisfirði og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Gunnlaugur lærði teikningu hjá Einari Jónssyni og er meðal fyrstu nemenda Muggs í skólanum við Hellusund. Árið 1923 fór hann til Kaupmannahafnar og nam við listaakademíuna þar en á meðan hann bjó sig undir inngöngu bjó hann í húsnæði Nínu Sæmundsson sem þá var á Ítalíu. Hann var í námi til 1930. Gunnlaugur giftist Grete Linck, samnemanda úr listnámi í Kaupmannahöfn og héldu þau sýningar saman. Gunnlaugur dvaldi hjá Sigvalda Kaldalóns í Grindavík um 1940 og málaði þá margar sjávarmynda sinna. Hann gerði myndir um Landnámið fyrir lýðveldishátíðina úr lituðum pappír. Þær myndir sýna m.a. Hrafna-Flóka, Ingólf og Hjörleif og öndvegissúlurnar. Auk þess að myndskreyta Njálu myndskreytti hann Gretlu og var fyrirmynd hans norsk skreyting Heimskringlu.

Um sýningarstjórann

Oddný Björk Daníelsdóttir fæddist 1986 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2006. Vorið 2011 útskrifaðist Oddný frá Háskóla Íslands með B.A. próf í listfræði með bókmenntafræði sem aukagrein. Þar af tók hún eitt ár í skiptinámi í Utrecht University í Hollandi. Oddný hóf meistaranám í listfræði í Háskóla Íslands en tók sér frí frá námi og á einungis meistararitgerð sína eftir en hún var byrjuð að rannsaka sýningastjórnun í myndlistarlífi Íslands. Oddný er einn af stofnendum Artíma Gallerí sem var gallerí listafræðinema við H.Í. rekið út frá sjónarhorni sýningastjóra. Oddný sat í stjórn félagsins 2012-2013 þar sem hún m.a. sá um skipulagningu og fjármögnun auk þess að sýningastýra á annan tug sýninga þar. Haustið 2013 fluttist Oddný til Seyðisfjarðar og hefur síðan unnið við ýmis tilfallandi verkefni á vegum Skaftfells, þ.á.m. við uppsetningu sýninga og við bókhald. Oddný hefur unnið við skrifstofustörf síðustu ár á Hótel Öldunni en er nú sölustjóri Skálanesseturs.